Þjónustusamningur Microsoft

Uppfært 11. júní 2014
Í gildi frá 31. júlí 2014

Við erum að uppfæra notkunarskilmálana. Nýju skilmálarnir taka gildi 1. ágúst 2015. Nýju skilmálana má sjá hér.

Takk fyrir að velja Microsoft!

Þetta er samningur milli þín og Microsoft Corporation (eða dótturfélags, allt eftir búsetu þinni, eins og lýst er í 12. lið) sem lýsir réttindum þínum við notkun á hugbúnaði og þjónustu sem tilgreind eru í lið 1.1. Þér til hægðarauka höfum við sett nokkra skilmála samningsins fram sem spurningar og svör. Þú ættir að lesa samninginn yfir í heild sinni, því allir skilmálarnir eru mikilvægir og mynda í sameiningu lagalegt samkomulag sem gildir fyrir þig þegar þú hefur samþykkt það. Auk þess er vísað í þessum samningi í skjöl og yfirlýsingar sem við hvetjum þig sömuleiðis til að lesa.

1. Umfang samkomulags, samþykki og breytingar

1.1. Hvaða þjónustu tekur þessi samningur til? Meginþjónustur sem þessi samningur nær yfir eru Outlook.com (áður Hotmail), OneDrive (áður SkyDrive), Microsoft-reikningur, Microsoft Family Safety, Windows Photo Gallery, Windows Movie Maker, Windows Live Mail, Windows Live Writer (saman eru þessar þjónustur nefndar „Windows-þjónusta“); Office.com, Microsoft Office 365 Home Premium, Microsoft Office 365 University og önnur þjónusta undir Microsoft Office sem tengist þessum samningi í gegnum viðbótarsamning („Office-þjónustan“); Bing og MSN. Við vísum sameiginlega í þessar þjónustur, sem og annan hugbúnað, vefsvæði og þjónustur sem tengjast þessum samningi, sem „þjónustuna“.

1.2. Hvaða ákvæðum verð ég að lúta þegar þjónustan er notuð? Markmið okkar er að skapa öruggara umhverfi og þess vegna krefjumst við þess að notendur fari eftir þessum skilmálum („þessum samningi“) þegar þeir nota þjónustuna. Ekki má nota þjónustuna á þann hátt að það brjóti í bága við réttindi þriðju aðila, meðal annars þegar reynt er vísvitandi að valda persónu eða aðila skaða.

1.3. Hvernig samþykki ég samninginn? Microsoft gerir þér tilboð með því að bjóða þér að gerast áskrifandi að og/eða panta þjónustuna. Þú verður að samþykkja þessa skilmála með því að samþykkja aðild til að geta notað þjónustuna og mynda þeir gilt samkomulag á milli þín og Microsoft. Með því að nota eða fá aðgang að þjónustunni eða með því að samþykkja þessa skilmála þar sem boðið er upp á slíkan valkost í notandaviðmótinu staðfestir þú að þú samþykkir að lúta þessum samningi án breytinga af þinni hálfu. Ef þú samþykkir það ekki máttu ekki nota þjónustuna.

1.4. Getur Microsoft breytt samningnum eftir að ég hef samþykkt hann? Já. Við munum tilkynna þér um það ef við hyggjumst breyta samningnum. Við breytum hugsanlega skilmálum samningsins ef: (i) það er nauðsynlegt vegna viðeigandi laga, meðal annars breytinga á slíkum lögum; (ii) það er nauðsynlegt vegna ráðgjafar og/eða tilskipunar á grunni viðeigandi laga; (iii) jafngildishlutfall þjónustu og endurgjalds riðlast; (iv) það er nauðsynlegt af tæknilegum ástæðum; (v) það er nauðsynlegt til að tryggja virkni þjónustunnar; eða (vi) skilmálunum verður breytt notandanum til hagsbóta. Við tilkynnum þér um fyrirhugaða breytingu áður en hún tekur gildi, annaðhvort í gegnum notandaviðmótið, í tölvupósti eða á annan sanngjarnan hátt. Við gefum þér kost á að segja upp þjónustunni a.m.k. 30 dögum áður en breytingin tekur gildi. Ef þú segir þjónustunni ekki upp innan þess tímabils (í samræmi við ferlið sem útskýrt er í lið 4.3) samþykkirðu breytinguna á samningnum. Við bendum þér einnig með skýrum hætti á þessa staðreynd þegar við tilkynnum þér um fyrirhugaða breytingu á samningnum.

1.5. Hvers konar breytingar get ég átt von á að verði gerðar í þjónustunni? Við vinnum ávallt að því markmiði að bæta þjónustuna, til að bæta eða uppfæra virkni hennar, kynna til leiks nýja eiginleika eða aðlaga þjónustuna, og við kunnum að breyta þjónustunni eða eyða eiginleikum úr henni hvenær sem er, meðal annars ef samningar okkar við þriðju aðila koma í veg fyrir að við getum birt efni þeirra, ef það er ekki í okkar hag að bjóða upp á þá, tæknin breytist eða endurgjöf viðskiptavina gefur til kynna að breytingar sé þörf. Þegar um gjaldskylda þjónustu er að ræða tilkynnum við þér fyrir fram um efnislegar breytingar á þjónustunni. Við gefum þjónustuna eða eiginleika hennar hugsanlega út í beta-útgáfu, sem virkar hugsanlega ekki rétt eða á sama hátt og endanleg útgáfa kæmi til með að virka. Við munum einnig tilkynna þér fyrir fram ef breytingar á þjónustunni munu valda því að efnið þitt glatist (eins og skilgreint er hér að neðan). Þú getur hvenær sem er sagt þjónustunni upp í samræmi við ferlið sem útskýrt er í lið 4.3.

1.6. Hver er lágmarksaldur fyrir notendur þjónustunnar? Með því að nota þjónustuna lýsir þú því yfir að þú hafir náð lögræðisaldri í landinu þar sem þú býrð eða hafir samþykki foreldris eða lögráðamanns til að samþykkja skilmála samningsins. Ef veist ekki hvort þú hefur náð lögræðisaldri í landinu þar sem þú býrð eða skilur ekki þennan lið skaltu ekki stofna reikning fyrr en þú hefur beðið foreldri eða lögráðamann um aðstoð. Ef þú ert foreldri eða lögráðamaður ólögráða barns sem stofnar reikning samþykkir þú þennan samning fyrir hönd barnsins og berð ábyrgð á allri notkun reikningsins eða þjónustunnar, þar með talið kaupum, hvort sem reikningur barnsins er opnaður núna eða stofnaður síðar.

2. Microsoft-reikningur

2.1. Hvað er Microsoft-reikningur? Microsoft-reikningur er þjónusta sem gerir þér kleift að skrá þig inn á vörur, vefsvæði og þjónustu Microsoft, auk sérvalinna samstarfsaðila Microsoft. Til að opna Windows-þjónustuna og Office-þjónustuna þarftu að vera skráð(ur) inn á Microsoft-reikning. Þegar þú stofnar Microsoft-reikning þarftu að gefa upp notandanafn og aðgangsorð, tilteknar lýðfræðilegar upplýsingar (land, fæðingardag, kyn, póstnúmer) og öryggisupplýsingar, t.d. annað netfang eða símanúmer. Netfangið eða notandanafnið sem þú notar til að stofna Microsoft-reikninginn verður helgað þér svo lengi sem Microsoft-reikningurinn er virkur. Ef annaðhvort þú eða Microsoft lokar Microsoft-reikningnum þínum samkvæmt skilmálum þessa samnings kann netfangið eða notandanafnið að verða endurnýtt í kerfinu og úthlutað öðrum notanda. Þeir sem þegar eru með Microsoft-reikning þurfa hugsanlega að leggja fram öryggisupplýsingar til að halda áfram að nota Microsoft-reikningana sína. Til að opna og stjórna Microsoft-reikningnum þínum og öryggisupplýsingum geturðu opnað vefsíðuna Öryggisupplýsingar (https://account.live.com/proofs/Manage). Lestu yfirlýsingar um persónuvernd (eins og þær eru skilgreindar hér að neðan) til að kynna þér hvernig Microsoft safnar og notar upplýsingar sem tengjast Microsoft-reikningnum þínum. Þú berð ábyrgð á því að tryggja að enginn annar komist yfir reikningsupplýsingarnar þínar og aðgangsorð. Þú getur notað Microsoft-reikninginn þinn til að fá aðgang að öðrum vörum, vefsvæðum eða þjónustu Microsoft (eins og Windows, Xbox og Windows Phone). Ef þú gerir það er hugsanlegt að skilmálar fyrir þær vörur, vefsvæði eða þjónustu, þar með talin viðkomandi yfirlýsing um persónuvernd, ef þeir eru frábrugðnir skilmálum í þessum samningi, gildi um notkun þína á þeirri vöru, vefsvæði eða þjónustu. Þú þarft að skrá þig reglulega inn á Microsoft-reikninginn þinn, að lágmarki einu sinni á ári, til að halda þjónustu Microsoft-reikningsins þíns virkri, nema annað komi fram í tilboði fyrir gjaldskyldan hluta þjónustunnar. Ef þú skráir þig ekki inn innan þessa tímabils lokum við reikningnum þínum (sem þýðir að lokað er á aðgang þinn að Windows-þjónustu, Office-þjónustu, efni sem vistað er á reikningnum og öðrum vörum eða þjónustu sem notar Microsoft-reikning). Þegar þjónustunni þinni er sagt upp eyðum við upplýsingum eða efni (eins og það er skilgreint hér að neðan) sem tengist Microsoft-reikningnum þínum eða á annan hátt aftengjum það frá þér eða Microsoft-reikningnum þínum, nema lög krefjist annars.

2.2. Hvað ef ég get ekki opnað Microsoft-reikninginn minn? Ef þú hefur gleymt aðgangsorðinu þínu eða getur ekki opnað Microsoft-reikninginn af öðrum ástæðum geturðu endurheimt Microsoft-reikninginn þinn á vefsíðunni Endurstilla aðgangsorðið (https://account.live.com/password/reset). Við munum gera okkar besta við að endurheimta Microsoft-reikninginn þinn en getum hins vegar ekki ábyrgst að Microsoft-reikningurinn þinn eða efnið þitt verði endurheimt.

2.3. Hvað ef ég fékk Microsoft-reikninginn minn frá öðrum en Microsoft? Microsoft veitir notendum ekki leyfi til að flytja Microsoft-reikningana sína en í sumum tilvikum gerum við þér kleift að fá Microsoft-reikning í gegnum þriðja aðila, eins og skóla, fyrirtæki, netþjónustu eða stjórnanda stýrðs léns (http://www.domains.live.com). Í slíkum tilvikum getur þessi þriðji aðili haft viðbótarheimildir fyrir Microsoft-reikninginn þinn, eins og að geta endurstillt aðgangsorðið þitt, skoðað reikningsnotkun þína eða gögn á notandasíðu, lesið eða vistað efni (eins og það er skilgreint síðar) á reikningnum þínum eða lokað eða sagt upp Microsoft-reikningnum þínum. Í slíkum tilvikum lýtur þú þessum samningi og hvers kyns viðbótarnotkunarskilmálum frá þeim þriðja aðila, sem sá þriðji aðili ætti að láta þér í té. Microsoft ber enga ábyrgð á viðbótarnotkunarskilmálum þriðju aðila. Ef þú ert stjórnandi á stýrðu léni berðu ábyrgð á öllum aðgerðum sem eiga sér stað á reikningum á stýrða léninu sem stafa af vanrækslu þinni eða yfirsjón.

3. Efni

3.1. Hver á efnið sem ég set inn í þjónustuna? Þú. Tiltekin þjónusta gerir þér kleift að eiga í samskiptum við aðra og deila eða vista ýmsar skrár, svo sem myndir, skjöl, tónlist og myndbönd. Efni í samskiptum og skránum þínum eru „efnið“ þitt og, að undanskildu efni sem við veitum þér heimild fyrir og er hugsanlega fellt inn í efnið þitt (eins og klippimyndir), krefjumst við ekki eignarhalds á efni sem þú veitir til þjónustunnar. Efnið þitt verður áfram þitt efni og þú berð ábyrgð á því. Við mælum eindregið með því að þú takir reglulega öryggisafrit af efninu þínu.

3.2. Hver hefur aðgang að efninu mínu? Þú hefur stjórn á því í upphafi hverjir fá aðgang að efninu þínu. Ef þú aftur á móti deilir efninu á opnum svæðum þjónustunnar, með eiginleikum sem leyfa opinbera deilingu efnis, eða samnýttum svæðum sem notendur sem þú velur hafa aðgang að gefurðu yfirlýst samþykki þitt fyrir því að allir sem þú deilir efninu með geti gjaldfrjálst notað, endurgert, dreift, birt, sent, vistað og miðlað efninu eingöngu í tengslum við þjónustuna og aðrar vörur og þjónustu Microsoft eða leyfishafa þess. Ef þú vilt ekki að aðrir hafi slíkan aðgang skaltu ekki deila efninu í þjónustunni. Þú lýsir því yfir og ábyrgist að á meðan þessi samningur gildir hafir þú (og munir hafa) öll nauðsynleg réttindi fyrir það efni sem þú hleður upp eða deilir í þjónustunni og að notkun á efninu, eins og því er lýst í þessari málsgrein, brjóti ekki í bága við nein lög eða réttindi þriðju aðila.

3.3. Hvað gerir Microsoft við efnið mitt? Þegar þú sendir eða hleður upp efni í þjónustuna ertu að veita Microsoft ótakmörkuð réttindi, án endurgjalds, til að nota efnið eftir þörfum: Til að veita þér þjónustuna (sem kann að fela í sér breytingar á stærð, lögun eða sniði efnisins þíns svo betur megi vista það eða birta þér), til að verja þig og til að bæta vörur og þjónustu Microsoft. Microsoft notar og ver efnið þitt í samræmi við yfirlýsingu um persónuvernd (eins og hún er skilgreind í 5. lið).

3.4. Hvers konar auglýsingar eru notaðar í þjónustunni? Sum þjónusta er fjármögnuð með auglýsingum. Upplýsingar um hvernig Microsoft sérsníður auglýsingar eru í „Þín persónuvernd“ og á vefsvæði fyrir sérsniðnar auglýsingar frá Microsoft (http://choice.microsoft.com). Við notum ekki það sem þú eða þeir sem þú átt samskipti við segja í tölvupóstum, spjalli, myndsímtölum eða talhólfum til að sérsníða auglýsingar fyrir þig. Við notum ekki skjölin þín, myndir eða aðrar persónulegar skrár til að miða auglýsingar á þig. Auglýsingastefnur okkar eru nákvæmlega útlistaðar í yfirlýsingum um persónuvernd.

3.5. Hvers konar efni eða aðgerðir eru bannaðar? Til að verja viðskiptavini okkar og þjónustuna höfum við innleitt eftirfarandi siðareglur fyrir notkun þjónustunnar. Efni eða aðgerðir sem brjóta gegn þessum samningi eru bannaðar.

  1. i. Ekki nota þjónustuna í ólöglegum tilgangi.

  2. ii. Ekki stunda athæfi sem notfærir sér, skaðar eða ógnar velferð barna.

  3. iii. Ekki senda ruslpóst eða nota reikninginn til að aðstoða aðra við að senda ruslpóst. Ruslpóstur er óumbeðinn fjöldapóstur, fjöldabirtingar eða fjöldaspjallskilaboð.

  4. iv. Ekki birta óviðeigandi myndir opinberlega (s.s. nektarmyndir, dýraníð, klám).

  5. v. Ekki stunda sviksamlegt eða misvísandi athæfi (t.d. að biðja um fjárframlög á fölskum forsendum eða villa á þér heimildir).

  6. vi. Ekki stunda athæfi sem er skaðlegt þjónustunni eða öðrum (t.d. veirur, einelti, hatursáróður, hvetja til ofbeldis gagnvart öðrum).

  7. vii. Ekki brjóta gegn réttindum annarra (t.d. óleyfileg deiling höfundarréttarvarðrar tónlistar, sala eða önnur dreifing Bing-korta, mynda eða annars efnis).

  8. viii. Ekki stunda athæfi sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annarra.

Oft er Microsoft tilkynnt um brot á siðareglunum í gegnum kvartanir viðskiptavina en við höfum einnig innleitt sjálfvirka tækni sem greinir barnaklám eða misnotkun sem kann að skaða kerfið, viðskiptavini okkar eða aðra. Við rannsókn á slíkum málum mun Microsoft eða fulltrúar þess skoða efni til að leysa vandamálið. Þetta er viðbót við þá notkun sem útlistuð er í þessum samningi og í yfirlýsingum um persónuvernd.

3.6. Getur Microsoft fjarlægt efnið mitt úr þjónustunni? Já. Við áskiljum okkur rétt til að hafna efni eða fjarlægja það úr þjónustunni hvenær sem er ef við teljum það brjóta í bága við viðeigandi lög eða þennan samning eða ef það fer yfir geymslumörk eða hámarksstærð skráa. Ef efnið sem þú geymir í þjónustunni er löglegt og í samræmi við þennan samning, varið með höfundarrétti og þú hefur heimild til að nota efnið, veitum við þér færi á því að endurheimta efnið. Þetta á ekki við ef efnið var fjarlægt af þjónum okkar vegna þess að Microsoft-reikningurinn þinn var óvirkur á því tímabili sem tilgreint er í lið 2.1. Við kunnum einnig að loka fyrir sendingu samskipta (eins og tölvupósts eða spjallskilaboða) til eða frá þjónustunni til að verja þjónustuna eða viðskiptavini okkar eða á annan hátt til að framfylgja skilmálum þessa samnings.

4. Uppsögn þjónustu

4.1. Hvað gerist ef ég hlíti ekki þessum samningi? Ef þú brýtur meðvitað í bága við samninginn og heldur áfram að brjóta gegn viðeigandi skuldbindingum eftir að hafa móttekið tilkynningu um að stöðva brotin innan viðeigandi og sanngjarns tímaramma grípum við hugsanlega til aðgerða gegn þér, meðal annars með því að biðja þig um að stunda ekki tiltekið athæfi, að fjarlægja efnið þitt úr þjónustunni, loka á eða segja upp aðgangi þínum að þjónustunni, gera Microsoft-reikninginn þinn óvirkan og/eða tilkynna athæfið til viðeigandi yfirvalda. Þessar ráðstafanir hafa ekki áhrif á frekari lagaleg réttindi Microsoft til að slíta samningnum án tafar af gildri ástæðu. Þar á meðal ef þú brýtur gegn efnislegri skyldu í samningi þessum. Efnislegar skyldur ná yfir hvers kyns skyldur sem uppfylla þarf til að framfylgja þessum samningi með tilhlýðilegum hætti, sem gera það kleift að Microsoft nái markmiðum þessa samnings og þar sem notandinn getur almennt gert ráð fyrir því að þessar skyldur verði uppfylltar í samræmi við skilning og innihald samningsins. Að fjarlægja efni eða segja upp þjónustu gefur til kynna að upplýsingum og efni sé eytt eða það aftengt frá Microsoft-reikningnum þínum. Upplýsingum og efni verður eytt eða það aftengt og þar með gert óaðgengilegt og því mælum við sterklega með því að þú takir reglulega öryggisafrit af gögnum og efni sem þú geymir í þjónustunni.

4.2. Gæti ég misst aðgang minn að þjónustunni á annan hátt? Já. Ef þú skráir þig ekki inn á Microsoft -reikninginn þinn (hvort sem er í gegnum Outlook.com, OneDrive eða aðra þjónustu sem notar Microsoft-reikning) að lágmarki einu sinni á ári (sjá lið 2.1) eða ef Microsoft hættir að bjóða upp á hluta þjónustunnar, í samræmi við lið 1.5. Í slíku tilviki verður gögnum þínum eytt varanlega úr þeim hluta þjónustunnar eða aftengt frá þér og Microsoft-reikningnum þínum, nema lög krefjist annars. Ef við segjum upp gjaldskyldri þjónustu endurgreiðum við þér í réttu hlutfalli við fjárhæð greiðslna sem þú hefur innt af hendi í samræmi við þann hluta þjónustunnar sem eftir stóð rétt fyrir uppsögn. Ef þú skráir þig fyrir gjaldskyldum hluta þjónustunnar og greiðir ekki á réttum tíma getum við hugsanlega sagt upp eða afturkallað þjónustuna (sjá frekari upplýsingar í lið 9.11).

4.3. Hvernig get ég sagt upp þjónustunni? Þú getur sagt upp þjónustunni sem tengist Microsoft-reikningnum þínum hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er á vefsíðu reikningsins (https://account.live.com/closeaccount.aspx). Til að segja upp greiðsluskyldri þjónustu, sjá lið 9.10. Ef þú segir upp þjónustu er fljótlegasta leiðin til að fjarlægja efnið þitt úr þjónustunni að fjarlægja það handvirkt úr mismunandi hlutum þjónustunnar (til dæmis að eyða tölvupóstinum þínum handvirkt). Aftur á móti skaltu hafa í huga að þótt efni sem þú hefur eytt eða sem er tengt við lokaðan reikning sé þér ekki aðgengilegt þá kann það að vera áfram til staðar í kerfum okkar í einhvern tíma á meðan við fjarlægjum efni sem hefur verið eytt úr kerfum okkar og hér með samþykkir þú slíka nauðsynlega gagnavinnslu. Frekari upplýsingar um geymsluvenjur Microsoft eru í yfirlýsingum um persónuvernd.

4.4. Hvað gerist ef þjónustunni minni er sagt upp? Ef þjónustunni er sagt upp (af þér eða okkur) er réttur þinn til afnota af þjónustunni tafarlaust afturkallaður og leyfi þitt til að nota hugbúnað okkar fellur úr gildi. Þú verður að fjarlægja hugbúnaðinn, annars gerum við hann óvirkan. Ef Microsoft-reikningi þínum er sagt upp (af þér eða okkur) er réttur þinn til afnota af Microsoft-reikningnum þínum tafarlaust afturkallaður. Þegar þjónustunni þinni er sagt upp eyðum við upplýsingum eða efni (eins og það er skilgreint hér að ofan) sem tengist Microsoft-reikningnum þínum eða á annan hátt aftengjum það frá þér eða Microsoft-reikningnum þínum, nema lög krefjist annars, og við erum ekki á neinn hátt skuldbundin til að skila efninu til þín.

5. Persónuvernd

Persónuvernd þín er okkur mikilvæg. Yfirlýsing um persónuvernd fyrir Windows-þjónustu (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkID=253457), yfirlýsing um persónuvernd fyrir Bing (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=248686), yfirlýsing um persónuvernd fyrir MSN (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=248688) og yfirlýsing um persónuvernd fyrir Office-þjónustu (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=327851) (saman nefnt „yfirlýsingar um persónuvernd“) lýsa því hvernig við notum og verjum efnið þitt og allar þær upplýsingar sem við söfnum um þig. Þessar yfirlýsingar eru mikilvægar. Lestu þær vandlega. Þessi samningur vísar í yfirlýsingar um persónuvernd. Með því að nota þjónustuna eða með því að samþykkja þessa skilmála fellst þú á söfnun, notkun og birtingu Microsoft á efninu þínu og upplýsingum eins og lýst er í yfirlýsingum um persónuvernd.

6. Truflun á þjónustu og öryggisafrit

Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að halda þjónustunni gangandi. Öll þjónusta á netinu verður hins vegar annað veifið fyrir truflunum eða bilunum. Þú ættir að taka reglulega öryggisafrit af efninu sem þú geymir í þjónustunni. Reglulegar öryggisafritanir auðvelda þér að koma í veg fyrir að efnið þitt glatist. Við leggjum okkur fram um að bjóða upp á nákvæma stöðu þjónustu á vefsvæðinu Staða þjónustu (http://status.live.com).

7. Hugbúnaður

7.1. Hvaða skilmálar gilda um hugbúnaðinn sem fylgir með sem hluti af þjónustunni? Ef ekki fylgir með sérstakur leyfissamningur fellur hugbúnaður sem við leggjum þér til sem hluta af þjónustunni undir skilmála þessa samnings. Hugbúnaðurinn er háður leyfi, en ekki seldur, og Microsoft áskilur sér allan rétt á hugbúnaðinum sem Microsoft veitir ekki með skýrum hætti samkvæmt leyfisskilmálunum. Ef vefsvæðið sem þú ert að skoða fellur undir þennan samning færðu leyfi fyrir hvers kyns forskriftum eða kóðum þriðju aðila, sem tenglar eða vísanir eru í á þessu vefsvæði, frá þeim þriðju aðilum sem eiga slíka kóða en ekki frá Microsoft.

7.2. Hvernig get ég notað hugbúnaðinn sem fylgir með sem hluti af þjónustunni? Sem hluta af notkun þinni á þjónustunni veitum við þér rétt til að setja upp og nota eitt eintak af hugbúnaðinum í hverju tæki, sem einn einstaklingur má nota í einu hverju sinni, en þó aðeins ef þú uppfyllir öll önnur skilyrði þessa samnings.

7.3. Er eitthvað sem ég má ekki gera við hugbúnaðinn eða þjónustuna? Já. Auk annarra takmarkana í þessum samningi máttu ekki sniðganga eða sneiða hjá tæknilegum verndarráðstöfunum í eða í tengslum við hugbúnaðinn eða þjónustuna eða taka í sundur, bakþýða eða vendismíða neinn hugbúnað eða annan hluta þjónustunnar sem er innifalinn í eða aðgengilegur gegnum þjónustuna, nema og þá aðeins að því marki sem viðeigandi höfundarréttarlög leyfa slíkt með skýrum hætti; aðskilja íhluti hugbúnaðarins eða þjónustunnar til notkunar í mismunandi tækjum; birta, afrita, leigja út, gera kaupleigusamning um eða lána hugbúnaðinn eða þjónustuna; eða yfirfæra hugbúnaðinn, hvers kyns hugbúnaðarleyfi eða önnur réttindi vegna aðgangs að eða notkunar þjónustunnar. Þú hefur ekki heimild til að nota þjónustuna á neinn óleyfilegan hátt sem gæti truflað notkun einhvers annars á henni eða fá aðgang að neinni þjónustu, gögnum, reikningi eða neti. Þú mátt ekki veita aðgang að þjónustunni frá forritum þriðja aðila án heimildar.

7.4. Hvernig er hugbúnaðurinn uppfærður? Við kunnum að kanna sjálfvirkt hvaða útgáfu af hugbúnaðinum þú ert með í þeim tilgangi sem nauðsynlegur er til að veita þjónustuna. Uppfærslum á hugbúnaðinum kann einnig að vera hlaðið sjálfkrafa niður í tölvuna þína án þess að gjald sé tekið fyrir, til að uppfæra, bæta og þróa þjónustuna frekar. Þú kannt að verða beðin(n) um að samþykkja slíkar uppfærslur samkvæmt þessum skilmálum nema aðrir skilmálar fylgi með uppfærslunum. Ef þú samþykkir gilda þeir skilmálar um uppfærða hugbúnaðinn en ef þú samþykkir ekki þá skilmála sem gilda um uppfærslurnar máttu ekki nota eða fá uppfærslurnar. Ef þú ert ekki beðin(n) um að samþykkja aðra skilmála við móttöku uppfærslu fellur uppfærslan undir þennan samning. Microsoft er ekki skylt að gera neinar uppfærslur aðgengilegar og ábyrgist ekki að við munum styðja þá útgáfu kerfisins sem leyfisveiting fyrir hugbúnaðinn gilti um.

8. Aðrir skilmálar fyrir Office-þjónustu, MSN og Bing

8.1. Miðlaeiningar og sniðmát frá Office-þjónustu. Ef þú notar Office-þjónustu kanntu að hafa aðgang að miðlamyndum, klippimyndum, hreyfimyndum, hljóðum, tónlist, myndskeiðum, sniðmátum og efni á öðru sniði („miðlaeiningar“) sem fylgir með hugbúnaðinum sem er aðgengilegur á Office.com eða sem er hluti af þjónustu sem tengist hugbúnaðinum. Microsoft veitir þér leyfi til að afrita, dreifa, spila og birta miðlaeiningar sem fylgja Office-þjónustu í verkefnum og skjölum en þú mátt ekki (i) selja, veita leyfi fyrir eða dreifa afritum af miðlaeiningunum einum sér eða sem vöru ef aðalvirði vörunnar er fólgið í miðlaeiningunum; (ii) veita viðskiptavinum þínum rétt á að veita frekara leyfi fyrir eða dreifa miðlaeiningunum frekar; (iii) veita leyfi fyrir eða dreifa í viðskiptaskyni miðlaeiningum þar sem koma fyrir einstaklingar, stjórnvöld, vörumerki eða tákn sem hægt er að bera kennsl á eða nota þess konar myndir þannig að það gæti gefið til kynna stuðning eða tengsl við vöru, aðila eða aðgerðir á þínum vegum; eða (iv) búa til ósiðleg eða móðgandi verk með því að nota miðlaeiningarnar. Aðrar miðlaeiningar sem aðgengilegar eru á öðrum vefsvæðum í gegnum tiltekna Office-þjónustu falla undir skilmála viðkomandi vefsvæða.

8.2. Efni á Bing og MSN. Greinar, myndir, myndbönd, efni þriðju aðila og innfellanlegur myndspilari sem hægt er að nálgast á Bing og MSN eru eingöngu ætluð þér til einkanota, en ekki í viðskiptalegum tilgangi, og, nema annað sé tekið fram annars staðar í þessum samningi eða heimilað berum orðum af hálfu Microsoft, þeim má ekki hlaða niður, afrita, birta, leigja, lána eða endurdreifa án heimildar rétthafa, nema og aðeins að því að marki sem viðeigandi höfundarréttarlög leyfa berum orðum. Þetta efni er háð leyfi, ekki selt, og Microsofteða aðrir rétthafar áskilja sér allan rétt til efnisins sem ekki er veittur sérstaklega af Microsoft samkvæmt leyfisskilmálunum, hvort sem um er að ræða óbeinan rétt, hindrun eða af öðrum sökum. Þriðju aðilar geta kosið að bjóða frekara efni eða þjónustu til sölu eða leyfis innan Bing eða MSN. Microsoft ber ekki ábyrgð á slíku efni eða þjónustu. Þú mátt ekki nota innfellanlega myndspilarann á neinu vefsvæði sem fæst að mestu við birtingu auglýsinga eða söfnun áskriftartekna eða sem er í beinni samkeppni við Bing eða MSN nema þú fáir skýrt og skriflegt samþykki okkar fyrst. Þú viðurkennir að notkun þín á innfellanlega myndspilaranum kann að leiða til viðbótarkostnaðar, -þóknana og -greiðslna fyrir afnot af réttindum vegna þriðju aðila, þ.m.t. greiðslna fyrir afnot af réttindum vegna opinbers flutnings sem við eiga í þínu landi eða á þínu svæði.

8.3. Yfirsýnarmyndefni í Bing-kortum. Þú mátt ekki nota yfirsýnarmyndefni úr Bing-kortum af Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Ástralíu eða Japan í stjórnsýslulegum tilgangi án sérstaks skriflegs leyfis frá okkur.

9. Ef þú greiðir Microsoft gilda eftirfarandi skilmálar fyrir þig

9.1. Gjöld. Ef gjald er tekið fyrir hluta þjónustunnar samþykkirðu að greiða það gjald. Verðið sem gefið er upp fyrir þjónustuna felur í sér alla skatta og gengisjafnanir sem við eiga, nema annað sé tekið fram.

9.2. Greiðslureikningurinn þinn. Til að greiða gjöld fyrir þjónustu verður beðið um að þú tilgreinir greiðslumáta þegar þú skráir þig fyrir þeirri þjónustu. Hægt er að fá aðgang að og breyta upplýsingum um greiðslureikning og greiðslumáta á vefsvæðinu Umsjón með greiðslum og reikningum (https://commerce.microsoft.com). Þú samþykkir að viðhalda ætíð nýjustu upplýsingum um greiðslureikning. Einnig samþykkirðu að leyfa Microsoft að nota hvers kyns uppfærðar reikningsupplýsingar varðandi greiðslumáta þinn sem útgáfubankinn þinn eða viðeigandi greiðslukerfi gefur upp. Ef þú segir okkur að hætta að nota greiðslumátann þinn og tilgreinir ekki annan greiðslumáta eftir að við sendum þér tilkynningu um að þú skulir gera það innan viðeigandi tímabils kunnum við að hætta að veita þér eða segja upp greiðsluskyldri þjónustu af gildri ástæðu. Tilkynning þín til okkar mun ekki hafa áhrif á þau gjöld sem við höfum fært á greiðslureikning þinn áður en við gætum hafa brugðist við breytingum þínum á upplýsingum um greiðslureikning.

9.3. Greiðslur. Með því að gefa Microsoft upp greiðslumáta (i) lýsirðu því yfir að þú hafir heimild til að nota greiðslumátann sem þú gafst upp og að hverjar þær greiðsluupplýsingar sem þú gefur upp séu réttar og nákvæmar; (ii) heimilarðu Microsoft að rukka þig fyrir þjónustuna með því að nota greiðslumátann þinn; og (iii) heimilarðu Microsoft að rukka þig fyrir hvers kyns greiðsluskylda eiginleika þjónustunnar sem þú velur að skrá þig fyrir eða panta á meðan þessi samningur er í gildi. Greiðsla þjónustugjalda með greiðslumáta þínum kann að eiga sér stað eins og samið var um, þ.m.t.: (a) við kaup; (b) stuttu eftir kaup; eða (c) endurtekið fyrir áskriftarþjónustu. Háð samþykki þínu kann greiðsla einnig að eiga sér stað fyrir fram. Einnig kunnum við að rukka þig upp að þeirri upphæð sem þú hefur samþykkt og við tilkynnum þér fyrir fram um mismuninn vegna endurtekinnar áskriftarþjónustu. Við kunnum að rukka þig fyrir fleiri en eitt fyrri og núverandi greiðslutímabila saman.

9.4. Sjálfvirk endurnýjun. Að því tilskildu að sjálfvirkar endurnýjanir séu leyfðar í þínu landi, héraði eða ríki upplýsum við þig annaðhvort um leið og þú skráir þig fyrir þjónustunni eða áður en við endurnýjum þjónustuna sjálfkrafa um að þjónustan endurnýist sjálfkrafa. Þegar við höfum upplýst þig um að þjónustan verði endurnýjuð sjálfkrafa megum við endurnýja þjónustuna sjálfkrafa og rukka þig um það verð sem þá gildir fyrir endurnýjunartímabilið. Við munum einnig minna þig á að við munum nota valinn greiðslumáta til að rukka fyrir endurnýjun þjónustunnar og munum veita þér leiðbeiningar um hvernig þú getur sagt upp þjónustunni. Við munum rukka þig um það verð sem þá gildir fyrir endurnýjunartímabilið, nema þú hafir tilkynnt okkur að þú viljir segja upp þessum samningi minnst mánuði áður en hann rennur út eða áður en hvert endurnýjunartímabil rennur út, eða á annan hátt í samræmi við hugsanleg fyrirmæli okkar um hvernig þú getur sagt upp.

9.5. Netyfirlit og villur. Við útvegum þér netreikningsyfirlit á vefsvæðinu Umsjón með greiðslum og reikningum (https://commerce.microsoft.com) þar sem þú getur skoðað og prentað út yfirlitið. Þér ber skylda til að skoða netreikningsyfirlitið reglulega, minnst einu sinni í mánuði. Þetta er eina reikningsyfirlitið sem við bjóðum upp á. Það er á þína ábyrgð að prenta út eða vista afrit af hverju netyfirliti og að geyma slíkt afrit. Ef við gerum mistök á reikningnum þínum munum við leiðrétta þau fljótlega eftir að þú lætur okkur vita og við athugum reikninginn. Þú verður að láta okkur vita innan 120 daga frá því að augljós villa birtist fyrst á reikningnum þínum. Ef þú lætur okkur ekki vita innan þess tíma leysirðu okkur undan allri ábyrgð og kröfum vegna taps sem leiðir af hvers kyns villu sökum minni háttar gáleysis; enn fremur munum við í því tilviki ekki þurfa að leiðrétta villuna eða endurgreiða þér. Í öllum öðrum tilvikum, ef Microsoft hefur fundið villu í reikningi, munum við upplýsa þig og gera ráðstafanir til að leiðrétta hana eins fljótt og kostur er.

9.6. Reynslutími eða uppsagnarréttur. Þegar þú biður um þjónustu frá okkur áttu rétt á reynslutíma upp á 15 daga frá þeim degi sem þjónustan verður virk. Þú getur sagt upp þjónustunni eins og fram kemur í lið 9.10. Sjá endurgreiðslustefnur Microsoft í lið 9.9.

9.7. Tilboð til reynslu. Ef þú tekur þátt í einhverju tilboði til reynslu verðurðu að segja upp þjónustunni í lok reynslutímabilsins til að forðast að ný gjöld leggist á, nema við tilkynnum þér um annað. Þú getur sagt upp þjónustunni eins og fram kemur í lið 9.10. Ef þú segir ekki upp þjónustunni og við höfum upplýst þig um að þjónustunni verði breytt í greiðsluskylda áskrift í lok reynslutímabilsins og við höfum upplýst þig um þau gjöld sem við eiga og hvers kyns aðra hugsanlega skilmála sem við eiga heimilarðu okkur að innheimta það verð sem þá gildir fyrir þjónustuna með greiðslumáta þínum.

9.8. Verðbreytingar. Ef tiltekin tímalengd og verð gildir fyrir þjónustutilboðið þitt mun það verð gilda þangað til tilboðstímabilinu lýkur. Þú þarft að samþykkja ný tilboð eða verð ef þú ætlar að halda áfram að nota þjónustuna. Ef þjónustan er bundin við ákveðin tímabil (til dæmis mánaðarlega), án tiltekinnar tímalengdar og er ekki tilboð til reynslu, kunnum við að breyta verði þjónustunnar um allt að fimm prósent á ári ef við upplýsum þig um það a.m.k. 30 dögum áður en breytingin tekur gildi. Þú færð tækifæri til að segja upp þjónustunni áður en verðinu er breytt. Þegar við tilkynnum þér um verðbreytinguna munum við einnig upplýsa þig sérstaklega um að nýja verðið taki gildi ef þú segir þjónustunni ekki upp. Eftir að tímabilinu lýkur, og að því tilskildu að þú hafir ekki sagt þjónustunni upp svo okkur sé kunnugt um, munum við rukka þig fyrir notkun þína á þjónustunni á nýja verðinu. Ef þú samþykkir ekki verðbreytinguna verður þú að segja þjónustunni upp og hætta að nota hana áður en verðbreytingin tekur gildi. Ef þjónustunni er sagt upp lýkur henni við lok núverandi þjónustutímabils eða, ef við rukkum þig reglulega, við lok tímabilsins þegar þú sagðir þjónustunni upp.

9.9. Endurgreiðslustefnur. Almennt eru gjöld ekki endurgreidd nema endurgreiðslan sé vegna venjulegrar uppsagnar eða uppsagnar af gildri ástæðu eða vegna vítaverðra aðgerða eða yfirsjónar af hálfu Microsoft, þ. á m. ef þjónustan er ekki veitt með skilvirkum hætti. Ef þú átt rétt á reynslutíma skv. lið 9.6 verða þér endurgreiddar, innan sanngjarnra tímamarka, þær upphæðir sem þú hefur greitt.

9.10. Þjónustunni sagt upp. Þú getur hvenær sem er sagt þjónustunni upp, með eða án ástæðu. Farðu á vefsvæðið Umsjón með greiðslum og reikningum (https://commerce.microsoft.com) til að nálgast frekari upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig þú segir þjónustunni upp. Þú skalt athuga tilboðið sem lýsir þjónustunni þar sem (i) þér ber hugsanlega skylda til að greiða öll gjöld sem færð hafa verið á greiðslureikninginn þinn fram að dagsetningu uppsagnar; eða (ii) þú hefur hugsanlega ekki lengur aðgang að Microsoft-reikningnum þínum þegar þú segir þjónustunni upp.

9.11. Seinkun á greiðslum. Ef greiðslur dragast verður þú að greiða þann réttmæta kostnað sem stofnað er til vegna innheimtu gjaldfallinna eldri upphæða, þ. á m. þóknanir til lögfræðinga og aðrar lögfræðiþóknanir og -kostnað, eins og lög og reglugerðir leyfa. Við getum hugsanlega sagt upp eða lokað á þjónustuna ef þú greiðir ekki að fullu á tilsettum tíma eftir að við sendum þér áminningu — þar sem tilkynnt er um yfirvofandi uppsögn og/eða stöðvun þjónustunnar — um að ganga frá greiðslu innan viðeigandi tímabils. Hægt er að komast hjá uppsögn eða stöðvun ef þú gengur frá greiðslunni sem krafist er innan viðeigandi tímabils samkvæmt áminningunni. Ólíkt ferli á við ef lágmarksupphæð vantar. Ef upphæðir sem vantar eru undir tveimur prósentum af heildarvirði reikningsins teljast þær ávallt vera lágmarksupphæðir. Uppsögn eða stöðvun þjónustunnar vegna vanefnda á greiðslum gæti valdið því að þú hafir ekki lengur aðgang að Microsoft-reikningnum þínum.

9.12. Greiðslur til þín. Ef við skuldum þér greiðslu samþykkirðu að útvega okkur, nákvæmlega og í tíma, hverjar þær upplýsingar sem við þurfum til að geta greitt þér. Þú berð ábyrgð á skilum skatta og gjalda sem kunna að hljótast af greiðslu til þín. Ef þér berst greiðsla fyrir mistök megum við bakfæra eða óska þess að greiðslan verði endurgreidd og þú samþykkir að vinna með okkur í aðgerðum okkar þar að lútandi.

9.13. Þjónusta með aðgangi að internetinu og önnur gjöld. Þú berð ábyrgð á að greiða þau gjöld sem netþjónustan eða Wi‑Fi-þjónustan innheimtir af þér. Þessi gjöld bætast við þau gjöld sem þú greiðir okkur fyrir þjónustuna. Ef þú notar þjónustuna með þráðlausum búnaði (til dæmis farsímum og spjaldtölvum) kann þjónustuveitan sem sér þér fyrir þráðlausu neti að innheimta gjöld fyrir tilkynningar, vefskoðun, skilaboð og aðra þjónustu sem krefst notkunar senditíma og þráðlausrar gagnaþjónustu. Leitaðu upplýsinga hjá farsímafyrirtækinu þínu hvort slík gjöld eiga við í þínu tilfelli. Þú berð alla ábyrgð á hverjum þeim gjöldum eða kostnaði sem til kemur vegna aðgangs að þjónustunni gegnum hvers kyns þráðlausa þjónustu eða aðra samskiptaþjónustu.

10. VIÐ VEITUM ENGA VIÐBÓTARÁBYRGÐ

NEMA Í ÞEIM TILFELLUM ÞAR SEM VIÐ HÖFUM FALIÐ GALLA GEGN BETRI VITUND EÐA GALLAR HAFA GERT ÞJÓNUSTUNA ÓNOTHÆFA ÚTVEGUM VIÐ ÞJÓNUSTUNA „EINS OG HÚN KEMUR FYRIR“, „MEÐ ÖLLUM VILLUM“ OG „Í SAMRÆMI VIÐ FRAMBOГ. VIÐ ÁBYRGJUMST EKKI AÐ UPPLÝSINGARNAR FRÁ ÞJÓNUSTUNNI SÉU NÁKVÆMAR EÐA RÉTT TÍMASETTAR. ÞÚ SAMÞYKKIR AÐ TÖLVU- OG FJARSKIPTAKERFI ERU EKKI GALLALAUS OG AÐ STUNDUM LIGGUR ÞJÓNUSTAN NIÐRI. VIÐ GETUM EKKI ÁBYRGST AÐ ÞJÓNUSTAN VERÐI ÓTRUFLUÐ, Á RÉTTUM TÍMA, ÖRUGG EÐA VILLULAUS. VIÐ OG TENGD FYRIRTÆKI OKKAR, ENDURSELJENDUR, DREIFINGARAÐILAR OG SÖLUAÐILAR VEITUM ENGA SÉRSTAKA ÁBYRGÐ, TRYGGINGAR EÐA SKILYRÐI. ÞÚ ÁTT RÉTT Á ALLRI ÁBYRGÐ SEM GERT ER RÁÐ FYRIR Í LÖGUM, EN VIÐ VEITUM ENGA AÐRA ÁBYRGÐ. VIÐ UNDANSKILJUM OKKUR HVERS KYNS ÓBEINNI ÁBYRGÐ, Þ. Á M. VEGNA SÖLUHÆFNI, NOTAGILDIS Í ÁKVEÐNUM TILGANGI, VANDAÐRA VINNUBRAGÐA OG HELGI EIGNARRÉTTAR AÐ ÞVÍ MARKI SEM GILDANDI LÖG LEYFA.

11. Takmörkun ábyrgðar

11.1. Microsoft skal ekki bera ábyrgð á neinu efni, þ. á m. tenglum í vefsvæði þriðju aðila, og athöfnum notenda. Hvorki má rekja slíkt efni og athafnir til Microsoft né heldur lýsir það skoðunum Microsoft.

11.2. Microsoft skal einungis vera ábyrgt fyrir minni háttar gáleysi af hálfu Microsoft, staðgengla þess og/eða lögmanna ef brotið hefur verið gegn efnislegum skyldum samningsins. Efnislegar skyldur ná yfir hvers kyns skyldur sem uppfylla þarf til að framfylgja þessum samningi með tilhlýðilegum hætti, sem gera það kleift að markmiðum þessa samnings sé náð og þar sem notandinn getur almennt gert ráð fyrir því að þessar skyldur verði uppfylltar í samræmi við skilning og innihald samningsins.

11.3. Microsoft, staðgenglar þess og/eða lögmenn skulu ekki bera ábyrgð á neinum ófyrirsjáanlegum skaða, ódæmigerðum skaða og/eða fjárhagslegu tapi með tilliti til hvers kyns óbeins tjóns, þ. á m. skerðingar á hagnaði, nema Microsoft, staðgenglar þess og/eða lögmaður þess hafi a.m.k. sýnt af sér alvarlega vanrækslu.

11.4. Takmörkun ábyrgðar skal ekki hafa ábyrgð á hvers kyns lögboðna ábyrgð Microsoft án sakar, þ. á m., án takmarkana, ábyrgð samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð og lögboðna ábyrgð vegna brota á vöruábyrgð. Hið sama skal gilda um ábyrgð Microsoft, staðgengla þess og/eða lögmanna ef einstaklingur verður fyrir lífshættulegu tjóni, líkams- eða heilsutjóni sem stafar af vanrækslu.

11.5. Engar aðrar samningsbundnar kröfur og réttarkröfur en þær sem undirliðir 11.1 til og með 11.4 í þessum 11. lið ná yfir skulu leiða af þessum samningi og/eða notkun þjónustunnar, fyrir utan hvers kyns samningsbundna og/eða lagalega ábyrgð Microsoft á dauðsfalli og/eða áverka sem þessi 11. liður hefur ekki náð yfir.

12. Samningsaðili af hálfu Microsoft, lögsagnarumdæmi og viðeigandi lög – Evrópa

Ef þú býrð í (eða ef um er að ræða fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Evrópu, og þú notar gjaldfrjálsa hluta þjónustunnar (t.d. Bing og MSN) gerirðu samning við Microsoft Corporation, One Microsoft Way, Redmond, WA 98052. Lög Washington-ríkis í Bandaríkjunum ná yfir allar kröfur sem tengjast gjaldfrjálsri þjónustu, með fyrirvara um áskilin lagaákvæði sem gilda í því landi sem þjónustan er veitt. Ef þú hefur greitt fyrir að nota hluta þessarar þjónustu (svo sem Outlook.com án auglýsinga eða Office-þjónustu) gerirðu samning við Microsoft Luxembourg S.à.r.l., 23-29, Rives de Clausen, L-2165 Luxembourg. Lög þess lands sem við veitum þjónustuna í ná yfir allar kröfur sem tengjast greiddri þjónustu, þ.m.t. kröfur byggðar á neytendavernd.

13. Vefsvæði þriðja aðila

Þú getur hugsanlega fengið aðgang að vefsvæðum eða þjónustu þriðja aðila í gegnum þjónustuna sem Microsoft stjórnar ekki eða gefur ekki út. Microsoft ber ekki ábyrgð á vefsvæðum, þjónustu eða efni þriðja aðila sem aðgengilegt er í gegnum þjónustuna. Þú berð alla ábyrgð á samskiptum þínum við þriðju aðila (þ. á m. auglýsendur). Notkun þín á vefsvæðum eða þjónustu þriðja aðila getur verið háð skilmálum þess þriðja aðila.

14. DRM (Digital Rights Management)

Ef þú færð aðgang að DRM-vörðu efni mun DRM-hugbúnaðurinn hugsanlega sjálfkrafa biðja um notkunarréttindi frá réttindaþjóninum á netinu og hlaða niður og setja upp DRM-uppfærslur svo að hægt sé að spila efnið.

15. Microsoft .NET Framework-hugbúnaður

Hugbúnaðurinn kann að innihalda Microsoft .NET Framework-hugbúnað. Þessi hugbúnaður er hluti Windows. Leyfisskilmálar Windows eiga við um notkun .NET Framework-hugbúnaðarins.

16. Líftími

Liðir 6, 9 (fyrir fjárhæðir sem stofnað er til áður en samningurinn fellur úr gildi), 10, 11, 12 og 19 og þeir liðir sem bera skilmála sem eiga við eftir að þessum samningi lýkur munu gilda áfram þrátt fyrir hvers kyns riftun þessa samnings.

17. Úthlutun og framsal

Við getum úthlutað, framselt eða á annan hátt ráðstafað réttindum okkar og skyldum undir þessum samningi í heild sinni eða að hluta, ef úthlutunin er þér ekki í óhag, hvenær sem er án tilkynningar.

18. Tilkynningar

Þessi samningur er á rafrænu sniði. Við getum hugsanlega sent þér, á rafrænu sniði, upplýsingar um þjónustuna, viðbótarupplýsingar og upplýsingar sem okkur ber að veita lögum samkvæmt. Við getum sent þér áskildar upplýsingar í tölvupósti á tölvupóstfangið sem þú tilgreindir þegar þú skráðir þig fyrir þjónustunni eða með aðgangi að vefsvæði Microsoft sem við auðkennum. Við mælum með því að þú fylgist með og viðhaldir netfanginu sem þú tilgreindir. Ef þú samþykkir ekki að fá tilkynningar með rafrænum hætti þarftu að hætta notkun þjónustunnar. Þú getur tilkynnt það til Microsoft, eins og tilgreint er í notendaþjónustu fyrir þjónustuna, eins og tilgreint er í lið 22.

19. Túlkun samnings

Þetta er samningurinn í heild sinni á milli þín og Microsoft fyrir notkun þína á þjónustunni. Hann leysir af hólmi alla fyrri samninga á milli þín og Microsoft varðandi notkun þína á þjónustunni. Liðaheiti þessa samnings eru eingöngu til tilvísunar og hafa engin réttaráhrif. Aðskilin ákvæði eða viðbótarákvæði gætu átt við þegar þú notar eða greiðir fyrir aðra þjónustu Microsoft en sem þessi samningur gildir um.

20. Engum þriðja aðila til hagsbóta

Þessi samningur er eingöngu þér og okkur til hagsbóta. Hann er ekki gerður neinum öðrum aðila til hagsbóta, nema arftökum og framsalshöfum sem leyfi hafa.

21. Leturgerðir

Þú mátt eingöngu nota leturgerðirnar til að birta og prenta efni þegar þjónustan er notuð. Ekki má sniðganga neinar takmarkanir á innfellingum leturgerðanna.

22. Notendaþjónusta

Notendaþjónusta fyrir Windows-þjónustu er hægt að nálgast á Microsoft-samfélaginu (http://answers.microsoft.com) og Windows-vefsvæðinu (http://windows.microsoft.com). Notendaþjónusta fyrir MSN Internet Access er fáanleg á MSN Support (https://support.msn.com). Notendaþjónusta í tölvupósti fyrir Bing- og Bing-biðlara er fáanlega á notendaþjónustu Bing (https://support.discoverbing.com). Hvers kyns kvartanir varðandi framkvæmd þessa samnings skal senda til vefsvæðanna sem sett eru fram í þessu ákvæði. Takmörkuð þjónusta við notendur Office 365 Home Premium og Office 365 University er í boði í notendaþjónustu fyrir Office (http://office.com/support) (hjálp/leiðarvísar) og á notendaþjónustu Microsoft (http://support.microsoft.com/ph/13615) (tæknileg aðstoð).

23. Takmarkanir á útflutningi

Ókeypis hugbúnaður og þjónusta Microsoft eru háð útflutnings- og tæknilögum Bandaríkjanna og annarra lögsagna og þú samþykkir að fara að öllum slíkum lögum og reglugerðum sem við eiga og ná yfir hugbúnaðinn og/eða þjónustuna. Heimildar ríkisstjórnar Bandaríkjanna er krafist til að flytja þennan ókeypis hugbúnað og þjónustu til ríkisstjórna allra landa þar sem viðskiptabann er í gildi eða til tiltekinna bannaðra aðila. Frekari upplýsingar eru á vefsvæði fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna (http://www.treasury.gov/resource-center/sanctions/Programs/Pages/Programs.aspx). Auk þess er gjaldskyld þjónusta háð útflutningslögum og -reglugerðum Bandaríkjanna sem þú verður að hlíta. Þessi lög fela í sér takmarkanir á endastöðum, notendum og notkun. Frekari upplýsingar eru á vefsvæði um útflutning á vörum Microsoft (http://www.microsoft.com/exporting).

TILKYNNINGAR

Tilkynninga- og kröfuferli vegna brota á hugverkarétti. Microsoft virðir hugverkarétt þriðju aðila. Ef þú vilt leggja fram kröfu vegna brots á hugverkarétti, þ.m.t. kröfu vegna brota á höfundarrétti, ráðleggjum við þér að senda slíka tilkynningu til tilnefnds umboðsaðila Microsoft. Upplýsingar og samskiptaupplýsingar er að finna í tilkynninga- og kröfuferli vegna brota á höfundarrétti (https://www.microsoft.com/info/cpyrtInfrg.htm). Microsoft notar ferlið sem útskýrt er í 17. grein bandarískra laga, lið 512(c)(2) til að bregðast við tilkynningum um brot á höfundarrétti. Við viðeigandi kringumstæður kann Microsoft einnig að loka fyrir eða eyða reikningum notenda Microsoft-þjónustu sem verða uppvísir að endurteknum brotum.

Microsoft notar ferlið sem útskýrt er í 17. grein bandarískra laga, lið 512(c)(2) til að bregðast við tilkynningum um brot á höfundarrétti. Við viðeigandi kringumstæður kann Microsoft einnig að loka fyrir eða eyða reikningum notenda Microsoft-þjónustu sem verða uppvísir að endurteknum brotum.

Tilkynningar og ferli varðandi hugverkarétt í auglýsingum. Lestu yfir leiðbeiningar okkar um hugverkarétt (e. Intellectual Property Guidelines) (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=243207) varðandi hugverkarétt á auglýsinganeti okkar.

Tilkynningar um höfundarrétt og vörumerki. Allir hlutar þjónustunnar eru varðir með höfundarrétti © 2013 Microsoft Corporation og/eða birgja þess, One Microsoft Way, Redmond, WA 98052, U.S.A. Allur réttur áskilinn. Allur réttur áskilinn. Við eða birgjar okkar eigum titla, höfundarrétt og annan hugverkarétt á þjónustunni og efni hennar. Microsoft og heitin, vörumerkin og táknin fyrir allar vörur, hugbúnað og þjónustu Microsoft eru hugsanlega annaðhvort vörumerki eða skráð vörumerki Microsoft (http://www.microsoft.com/about/legal/en/us/IntellectualProperty/Trademarks/EN-US.aspx) í Bandaríkjunum og/eða öðrum löndum. Heiti raunverulegra fyrirtækja og vara gætu verið vörumerki viðkomandi eigenda. Allur réttur sem ekki er veittur með yfirlýstum hætti í þessum samningi er áskilinn. Tiltekinn hugbúnaður sem notaður er á tilteknum vefsvæðisþjónum Microsoft byggist að hluta til á vinnu Independent JPEG Group. Höfundarréttur © 1991–1996 Thomas G. Lane. Allur réttur áskilinn. „gnuplot“-hugbúnaður sem notaður er á tilteknum vefsvæðisþjónum Microsoft er varinn með höfundarrétti © 1986–1993 Thomas Williams, Colin Kelley. Allur réttur áskilinn.

Hlutabréfagengi og vísitölugögn (þ. á m. vísitölugildi). © 2013 Morningstar, Inc. Allur réttur áskilinn. Upplýsingarnar sem hér eru settar fram: (1) eru í einkaeign Morningstar og/eða efnisveitna þess; (2) má ekki afrita eða dreifa; og (3) ekki er ábyrgst að þær séu réttar, ítarlegar eða uppfærðar. Hvorki Morningstar né efnisveitur þess bera ábyrgð á neinum skaða eða tapi sem verða kann vegna hvers kyns notkunar á þessum upplýsingum. Afkoma síðustu ára er engin trygging fyrir framtíðarafkomu.

Þú mátt ekki nota nein vísitölugögn frá Dow Jones Indexes SM eða merki Dow Jones í tengslum við útgáfu, stofnun, kostun, viðskipti, markaðssetningu eða kynningu á neinum fjármálagerningum eða fjárfestingarvörum (til dæmis afleiðum, sérhönnuðum vörum, fjárfestingarsjóðum, sjóðum sem viðskipti eru með á verðbréfamarkaði eða fjárfestingarsöfnum; þar sem verð, arður og/eða afköst gerningsins eða fjárfestingarvörunnar eru byggð á, tengd eða ætlað að fylgjast með hvers kyns vísitölu eða staðgengli fyrir hvers kyns vísitölu) án sérstaks skriflegs samkomulags við Dow Jones.

Fjárhagsleg tilkynning. Microsoft er ekki miðlari/söluaðili eða skráður fjárfestingarráðgjafi sem háður er bandarískum alríkislögum um verðbréf eða lögum um verðbréf í öðrum lögsögum og gefur einstaklingum ekki ráðgjöf um fýsileika þess að fjárfesta í, kaupa eða selja verðbréf eða aðrar fjármálavörur eða -þjónustu. Ekkert sem innifalið er í þjónustunni er tilboð eða beiðni um að kaupa eða selja nein verðbréf. Hvorki Microsoft né leyfishafar þess á hlutabréfagengi eða vísitölugögnum mæla með neinum sérstökum fjármálavörum eða -þjónustu. Engu í þjónustunni er ætlað að vera fagleg ráðgjöf, meðal annars um fjárfestingar eða skatta.

Tilkynning um H.264/AVC MPEG-4 myndstaðalinn og VC-1 myndefnisstaðalinn. Hugbúnaðurinn gæti verið búinn H.264/AVC, MPEG-4 Visual og/eða VC-1 afkóðunartækni sem kann að vera í eigu MPEG LA, L.L.C. Þessi tækni er snið fyrir gagnaþjöppun myndefnisupplýsinga. MPEG LA, L.L.C. krefst eftirfarandi tilkynningar:

ÞESSI VARA ER HÁÐ LEYFUM H.264/AVC, MPEG-4 VISUAL OG VC-1 EINKALEYFASAFNANNA FYRIR EIGIN NOTKUN NEYTANDA OG NOTKUN SEM EKKI ER VIÐSKIPTALEGS EÐLIS TIL AÐ (A) KÓÐA MYNDEFNI Í SAMRÆMI VIÐ STAÐLANA („MYNDEFNISSTAÐLAR“) OG/EÐA (B) AFKÓÐA h.264/AVC, MPEG-4 VISUAL OG VC-1 MYNDEFNI SEM VAR KÓÐAÐ AF NEYTANDA SEM STUNDAÐI EIGIN ATHAFNIR EÐA ATHAFNIR SEM EKKI ERU VIÐSKIPTALEGS EÐLIS OG/EÐA VAR FENGIÐ FRÁ MYNDEFNISVEITU MEÐ HEIMILD TIL AÐ VEITA SLÍKT MYNDEFNI. EKKERT AF LEYFUNUM NÆR YFIR AÐRAR VÖRUR ÓHÁÐ ÞVÍ HVORT SLÍK VARA VAR INNIFALIN Í ÞESSUM HUGBÚNAÐI SEM EINN HLUTUR. EKKERT LEYFI ER VEITT EÐA SKAL GEFIÐ Í SKYN TIL NEINNAR ANNARRAR NOTKUNAR. FREKARI UPPLÝSINGAR MÁ FÁ HJÁ MPEG LA, L.L.C. SJÁ VEFSVÆÐI MPEG LA (http://www.mpegla.com).

Þessi tilkynning er til skýringar eingöngu og takmarkar hvorki né kemur í veg fyrir notkun hugbúnaðarins sem veittur er undir þessum samningi fyrir eðlilega viðskiptalega notkun sem telst eigin notkun í þeim viðskiptum og felur ekki í sér (i) endurdreifingu hugbúnaðarins til þriðju aðila eða (ii) að efni sé búið til með tækni sem samræmist MYNDEFNISSTÖÐLUNUM til dreifingar til þriðju aðila.

Safnvistaður þjónustusamningur Microsoft

Uppfært 27. ágúst 2012
Tekur gildi 19. október 2012

Takk fyrir að velja Microsoft!

Þetta er samningur milli þín og Microsoft Corporation (eða dótturfélags, allt eftir búsetu þinni) sem lýsir réttindum þínum við notkun á hugbúnaði og þjónustu sem tilgreind eru í hluta 1.1. Þér til hægðarauka höfum við sett nokkur ákvæði samningsins fram sem spurningar og svör. Þú ættir að lesa samninginn yfir í heild sinni, því öll ákvæðin eru mikilvæg og mynda í sameiningu lagalegt samkomulag sem gildir fyrir þig þegar þú hefur samþykkt það. Auk þess er vísað í þessum samningi í skjöl og yfirlýsingar sem við hvetjum þig sömuleiðis til að lesa.

1. Umfang samningsins, samþykki og breytingar

1.1. Hvaða þjónustu tekur þessi samningur til? Þessi samningur gildir um Microsoft Hotmail, Microsoft SkyDrive, Microsoft-reikning, Windows Live Messenger, Windows Photo Gallery, Windows Movie Maker, Microsoft Mail Desktop og Windows Live Writer (sem nefnast í sameiningu „þjónusta með vörumerki Microsoft“), Bing, MSN, Office.com og hvers kyns annan hugbúnað, vefsvæði eða þjónustu sem tengist þessum samningi (nefnist í sameiningu „þjónusta“).

1.2. Hvaða ákvæðum verð ég að lúta þegar þjónustan er notuð? Markmið okkar er að skapa öruggara umhverfi og því krefjumst við þess að notendur fylgi þessum ákvæðum þegar þjónustan er notuð, stefnu Microsoft gegn ruslpósti (Anti-Spam Policy, http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=117951) og Microsoft-siðareglunum (Code of Conduct, http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=266426), sem felld eru inn í þennan samning með þessari tilvísun („samningurinn“). Ekki má nota þjónustu á þann hátt að það brjóti í bága við réttindi þriðju aðila, meðal annars, en án takmörkunar við, þegar reynt er vísvitandi að valda persónu eða aðila skaða.

1.3. Hvernig samþykki ég samninginn? Microsoft gerir þér tilboð með því að bjóða þér að gerast áskrifandi að og/eða panta þjónustu. Þú verður að samþykkja þessi ákvæði og skilmála með því að samþykkja aðild til að geta notað þjónustuna og mynda þau gilt samkomulag á milli þín og Microsoft. Með því að nota eða fá aðgang að þjónustunni eða með því að samþykkja þessi ákvæði þar sem boðið er upp á slíkan valkost í notandaviðmótinu staðfestir þú að þú samþykkir að lúta þessum samningi án breytinga af þinni hálfu. Ef þú samþykkir það ekki geturðu ekki notað þjónustuna.

1.4. Getur Microsoft breytt þessum ákvæðum eftir að ég hef samþykkt þau? Já. Við munum tilkynna þér um það ef við hyggjumst breyta samningnum. Við breytum hugsanlega ákvæðum samningsins ef: (i) það er nauðsynlegt vegna viðeigandi laga, þ. á m., en án takmörkunar við, breytinga á slíkum lögum; (ii) það er nauðsynlegt vegna ráðgjafar og/eða tilskipunar á grunni viðeigandi laga; (iii) jafngildishlutfall þjónustu og endurgjalds riðlast; (iv) það er nauðsynlegt af tæknilegum ástæðum; (v) það er nauðsynlegt til að tryggja virkni þjónustunnar; eða (vi) ákvæðunum verður breytt notandanum til hagsbóta. Við tilkynnum þér um fyrirhugaða breytingu áður en hún tekur gildi, annaðhvort í gegnum notandaviðmótið, í tölvupósti eða á annan sanngjarnan hátt. Við gefum þér kost á því að segja upp þjónustunni a.m.k. 30 dögum áður en breytingin tekur gildi. Ef þú segir þjónustunni ekki upp innan þess tímabils samþykkirðu breytinguna á samningnum. Við bendum þér einnig með skýrum hætti á þessa staðreynd þegar við tilkynnum þér um fyrirhugaða breytingu á samningnum.

1.5. Hvers konar breytingar get ég átt von á að verði gerðar á þjónustunni? Við vinnum stöðugt að því að betrumbæta þjónustuna til að bæta eða uppfæra virkni, bæta við nýjum eiginleikum eða aðlaga þjónustuna og gætum því breytt þjónustu eða eytt út eiginleikum hvenær sem er. Þegar um gjaldskylda þjónustu er að ræða tilkynnum við þér fyrir fram um efnislegar breytingar á þjónustunni. Þú getur sagt þjónustunni upp hvenær sem er. Við gefum hugsanlega út þjónustu eða eiginleika hennar í beta-útgáfu, sem virkar hugsanlega ekki rétt eða á sama hátt og endanleg útgáfa kæmi til með að virka.

2. Microsoft-reikningur

2.1. Hvað er Microsoft-reikningur? Þú þarft að vera með Microsoft-reikning til að fá aðgang að hluta þjónustunnar, eins og þjónustu með vörumerki Microsoft. Microsoft-reikningurinn, sem áður nefndist Windows Live kenni, er skilríki sem þú notar til auðkenningar á neti okkar. Til að geta stofnað Microsoft-reikning þarftu að gefa upp notandanafn og aðgangsorð, tilteknar lýðfræðilegar upplýsingar og „reikningssannanir“, t.d. annað netfang eða símanúmer. Handhafar Microsoft-reikninga sem fyrir eru þurfa hugsanlega að útvega „reikningssannanir“ til að halda áfram að nota Microsoft-reikninginn sinn. Það er á þína ábyrgð að halda reikningsupplýsingum þínum og aðgangsorði leyndum. Þú getur notað Microsoft-reikninginn þinn til að fá aðgang að öðrum vörum, vefsvæðum eða þjónustu Microsoft (eins og Windows, Xbox LIVE og Windows Phone). Hins vegar er hugsanlegt að ákvæði og skilmálar fyrir þær vörur, vefsvæði eða þjónustu gildi um notkun þína á þeirri vöru, vefsvæði eða þjónustu ef ákvæðin og skilmálarnir eru frábrugðin þessum samningi. Þjónusta með vörumerki Microsoft krefst þess að þú skráir þig reglulega inn á Microsoft-reikninginn þinn, a.m.k. á 270 daga fresti, til að sá hluti þjónustunnar sem er með vörumerki Microsoft haldist virkur, nema annað komi fram í tilboði fyrir gjaldskyldan hluta þjónustunnar. Ef þú skráir þig ekki inn á þessu tímabili er hugsanlegt að lokað verði á aðgang þinn að þjónustu með vörumerki Microsoft. Ef lokað er á aðgang að þjónustu með vörumerki Microsoft vegna þess að þú skráir þig ekki inn er hugsanlegt að gögnum þínum verði eytt varanlega af þjónum okkar.

2.2. Hvað ef ég get ekki opnað Microsoft-reikninginn minn? Ef þú hefur gleymt aðgangsorðinu þínu eða getur ekki opnað Microsoft-reikninginn af öðrum ástæðum geturðu endurheimt Microsoft-reikninginn þinn á vefsíðunni Endurheimta aðgangsorð (Reset your password, http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=238656). Microsoft veitir enga tryggingu fyrir því að Microsoft-reikningurinn þinn verði endurheimtur eða að efni þitt (eins og það er skilgreint síðar) verði varðveitt

2.3. Hvað ef ég fékk Microsoft-reikninginn minn frá öðrum en Microsoft? Í sumum tilvikum gerum við þér kleift að fá Microsoft-reikning í gegnum þriðja aðila, eins og skóla, fyrirtæki, netþjónustu eða stjórnanda á stýrðu léni (http://www.domains.live.com). Í slíkum tilvikum getur þessi þriðji aðili haft viðbótarheimildir yfir Microsoft-reikningnum þínum, eins og að geta endurstillt aðgangsorðið þitt, skoðað reikningsnotkun þína eða gögn á notandasíðu, lesið eða geymt efni á reikningnum þínum eða lokað eða sagt upp Microsoft-reikningnum þínum. Í slíkum tilvikum ertu háð(ur) þessum samningi og hvers kyns viðbótarákvæðum um notkun frá þeim þriðja aðila, sem sá þriðji aðili ætti að birta þér. Microsoft ber enga ábyrgð á viðbótarákvæðum þriðju aðila um notkun. Ef þú ert stjórnandi á stýrðu léni berðu ábyrgð á öllum aðgerðum sem eiga sér stað á reikningum á stýrða léninu sem stafa af vanrækslu þinni eða yfirsjón.

3. Efni

3.1. Hver á efnið sem ég set inn í þjónustuna? Efni felur í sér allt sem þú hleður upp, geymir á eða sendir í gegnum þjónustuna, eins og gögn, skjöl, myndir, myndskeið, tónlist, tölvupóst eða spjallskilaboð („efni“). Að undanskildu efni sem við veitum þér heimild fyrir og er hugsanlega fellt inn í efnið þitt (eins og klippimyndir) krefjumst við ekki eignarhalds á efni sem þú veitir til þjónustunnar. Efnið þitt verður áfram þitt efni og þú berð ábyrgð á því. Við mælum eindregið með því að þú takir reglulega öryggisafrit af efninu þínu. Enn fremur stjórnum við ekki, sannprófum, greiðum fyrir eða mælum með efni sem þú eða aðrir gera aðgengilegt í þjónustunni.

3.2. Hver hefur aðgang að efninu mínu? Þú hefur stjórn á því í upphafi hverjir fá aðgang að efninu þínu. Ef þú deilir efninu á almenningssvæðum þjónustunnar eða samnýttum svæðum sem notendur sem þú velur hafa aðgang að gefurðu yfirlýst samþykki þitt fyrir því að allir sem þú deilir efninu með geti gjaldfrjálst notað, endurgert, dreift, birt, sent, vistað og miðlað efninu eingöngu í tengslum við þjónustuna og aðrar vörur og þjónustu Microsoft eða leyfishafa þess. Ef þú vilt ekki að aðrir hafi slíkan aðgang skaltu ekki deila efninu í þjónustunni. Ef þú notar eða deilir efni í þjónustunni á þann hátt að það brjóti á höfundarrétti, vörumerkjum, öðrum hugverkarétti eða eignarrétti brýturðu í bága við ákvæði samningsins. Þú lýsir því yfir og ábyrgist að á meðan þessi samningur gildir hafir þú (og munir hafa) öll nauðsynleg réttindi yfir því efni sem þú hleður upp eða deilir í þjónustunni og að notkun á efninu, eins og því er lýst í þessari málsgrein, brjóti ekki í bága við nein lög eða réttindi þriðju aðila.

3.3. Hvað gerir Microsoft við efnið mitt? Þegar þú hleður upp efninu þínu í þjónustunni samþykkirðu að nota megi efnið, breyta því, aðlaga það, vista það, endurgera það, dreifa því og birta það að því marki sem nauðsynlegt er til að gæta öryggis þíns og til að veita, verja og endurbæta vörur og þjónustu Microsoft. Sem dæmi má nefna að öðru hvoru kunnum við að greina upplýsingar í tölvupósti, spjalli eða ljósmyndum með sjálfvirkum hætti í því skyni að bera kennsl á og verjast ruslpósti og spilliforritum eða til að endurbæta þjónustu með nýjum eiginleikum sem gera hana auðveldari í notkun. Við úrvinnslu á efninu þínu gerir Microsoft ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga þinna.

3.4. Hvers konar efni er bannað? Efni sem brýtur í bága við þennan samning, sem felur í sér stefnu Microsoft gegn ruslpósti (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=117951) og siðareglur Microsoft eða staðbundin (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=266426), lög er ekki leyfilegt í þjónustunni. Microsoft áskilur sér rétt til að yfirfara efnið til að tryggja að farið sé eftir þessum samningi. Microsoft getur lokað á eða hindrað á annan hátt sendingu hvers kyns tölvupósts, spjallskilaboða eða annarra samskipta til eða frá þjónustunni í þeirri viðleitni okkar að vernda þjónustuna eða viðskiptavini okkar, eða á annan hátt tryggja að samningnum sé framfylgt.

3.5. Getur Microsoft fjarlægt efnið mitt úr þjónustunni? Já. Við áskiljum okkur rétt til að hafna efni eða fjarlægja það úr þjónustunni hvenær sem er ef við teljum það brjóta í bága við viðeigandi lög eða þennan samning, eða ef það fer yfir geymslumörk eða hámarksstærð skráa. Við getum neitað að birta efni eða fjarlægt efni af hvers kyns ástæðu eða án ástæðu. Ef efnið sem þú geymir í þjónustunni er löglegt og í samræmi við þennan samning, varið með höfundarrétti og þú hefur heimild til að nota efnið, veitum við þér færi á því að endurheimta efnið. Þetta á ekki við ef efnið var fjarlægt af þjónum okkar vegna þess að Microsoft-reikningurinn þinn var óvirkur á því tímabili sem tilgreint er í hluta 2.2.

4. Uppsögn þjónustu

4.1. Hvað gerist ef ég hlíti ekki þessum ákvæðum? Ef þú brýtur í bága við samninginn og heldur áfram að brjóta gegn viðeigandi skuldbindingum eftir að hafa móttekið tilkynningu um að stöðva brotin innan viðeigandi og sanngjarns tímaramma grípum við hugsanlega til aðgerða gegn þér, þ. á m. (án takmörkunar) að fjarlægja efnið þitt úr þjónustunni, loka á aðgang þinn að þjónustunni, biðja þig um að hætta tilteknu athæfi, segja upp þjónustu þinni og/eða tilkynna slíkt athæfi til viðeigandi yfirvalda. Þessar ráðstafanir hafa ekki áhrif á frekari lagaleg réttindi Microsoft til að slíta samningnum án tafar af gildri ástæðu. Þar á meðal ef þú brýtur gegn efnislegri skyldu í samningi þessum. Efnislegar skyldur ná yfir hvers kyns skyldur sem uppfylla þarf til að framfylgja þessum samningi með tilhlýðilegum hætti, sem gera kleift að ná markmiðum þessa samnings og þar sem notandinn getur almennt gert ráð fyrir því að þessar skyldur verði uppfylltar í samræmi við skilning og innihald samningsins. Þegar efni er fjarlægt og þjónustu sagt upp felur það í sér að gögnum er eytt. Gögnum verður eytt og þau verða óafturkræf og því mælum við sterklega með því að þú takir reglulega öryggisafrit af gögnum og efni sem þú geymir í þjónustunni.

4.2. Gæti ég misst aðgang minn að þjónustunni á annan hátt? Já. Hlutar þjónustunnar (þjónusta með vörumerki Microsoft) krefjast þess að þú skráir þig inn á Microsoft-reikninginn þinn a.m.k. á 270 daga fresti (sjá hluta 2.2). Auk þess eru ástæður fyrir því hvers vegna Microsoft gæti hætt að veita hluta af þjónustunni, þ. á m. (án takmarkana) vegna þess að ekki er lengur æskilegt að við veitum hana, tækninni fleygir fram, endurgjöf viðskiptavina bendir til þess að breytinga sé þörf eða ytri aðstæður koma upp sem gera áframhaldandi þjónustuveitingu óæskilega eða óhentuga. Í slíkum tilvikum verður gögnum þínum eytt varanlega úr þeim hluta þjónustunnar. Ef við segjum upp gjaldskyldri þjónustu í heild sinni án ástæðu endurgreiðum við þér í réttu hlutfalli við fjárhæð greiðslna sem þú hefur innt af hendi í samræmi við þann hluta þjónustunnar sem eftir stóð rétt fyrir uppsögn. Ef þú skráir þig fyrir gjaldskyldum hluta þjónustu og greiðir ekki á réttum tíma getum við hugsanlega sagt upp eða lokað á þjónustuna (sjá frekari upplýsingar í hluta 9.11).

4.3. Hvernig get ég sagt upp þjónustunni? Þú getur hvenær sem er sagt upp þjónustunni og af hvaða ástæðu sem er. Þú getur gert það með því að fara á vefsíðu reikningsins þíns (Account Services, https://account.live.com) og fara í gegnum lokunarferli fyrir reikninginn. Til að segja upp greiðsluskyldri þjónustu, sjá hluta 9.10. Ef þú segir upp þjónustu er fljótlegasta leiðin til að losna við efnið þitt í þjónustunni að fjarlægja það handvirkt úr mismunandi hlutum þjónustunnar (til dæmis að eyða tölvupóstinum þínum handvirkt). Hins vegar skaltu athuga að þótt efni sem þú hefur eytt eða tengist lokuðum reikningi sé þér ekki lengur aðgengilegt gæti það verið til staðar í kerfum okkar í einhvern tíma.

4.4. Hvað gerist ef þjónustunni minni er sagt upp eða henni hætt? Ef þjónustunni er sagt upp eða henni hætt (af þér eða okkur) stöðvast réttindi þín til að nota þjónustuna tafarlaust og leyfi þitt til að nota hugbúnað okkar fellur úr gildi. Þú verður að fjarlægja hugbúnaðinn, annars gerum við hann óvirkan. Ef Microsoft-reikningi þínum er sagt upp eða honum lokað (af þér eða okkur) missirðu réttindi þín til að nota Microsoft-þjónustuna tafarlaust. Ef þjónustunni er sagt upp eða henni slitið eyðum við efninu þínu hugsanlega varanlega af þjónum okkar og okkur ber engin skylda til að skila þér efninu. Því ráðleggjum við þér að taka reglulega öryggisafrit af efninu þínu.

5. Persónuvernd

5.1. Safnar Microsoft persónuupplýsingum mínum? Persónuvernd þín er okkur mikilvæg. Við notum tilteknar upplýsingar sem við söfnum frá þér til að keyra og veita þjónustuna. Auk þess er það hluti af þjónustunni að hlaða sjálfkrafa upp upplýsingum um vélbúnað þinn, notkun þína á þjónustunni og afköst þjónustunnar. Lestu yfirlýsingu Microsoft um persónuvernd á netinu (Online Privacy Statement, http://go.microsoft.com/fwlink/p/?LinkId=253457) til að fá upplýsingar um hvernig við notum og verndum upplýsingar þínar.

5.2. Notar þjónustan kökur? Já, þjónustan notar kökur. Kaka er lítil textaskrá sem vefþjónninn kemur fyrir í tækinu. Kökur innihalda texta sem vefþjónn á léninu sem gaf út kökuna getur einn lesið. Ef Bing.com gefur til dæmis út köku geta einungis vefþjónar Bing.com lesið kökuna. Þjónustan notar kökur í ýmsum tilgangi, þ. á m. til að geyma kjörstillingar þínar og aðrar stillingar, sníða efnið að þínum þörfum og greina hvernig fólk notar þjónustuna svo að við getum bætt hana. Við notum einnig kökur sem hluta af innskráningarferlinu fyrir Microsoft-reikninginn, sem og fyrir netauglýsingar (þ. á m. auglýsingar sem miðaðar eru að ákveðnu atferli). Til að læra hvernig hægt er að útiloka, stjórna og eyða kökum, þ. á m. hvernig hægt er að velja að taka ekki þátt í atferlismiðuðum auglýsingum Microsoft, skaltu lesa hlutann „Notkun á kökum“ í Yfirlýsingu um persónuvernd (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=74170). Með því að nota þjónustuna veitirðu okkur heimild til að koma köku fyrir í tækinu þínu að því marki sem persónustillingar þínar leyfa.

5.3. Opinberar Microsoft persónuupplýsingar mínar aðilum utan Microsoft? Þú gefur yfirlýst samþykki þitt fyrir því að Microsoft geti fengið aðgang að, opinberað eða geymt upplýsingar sem tengjast notkun þinni á þjónustunni, þ. á m. (án takmarkana) persónuupplýsingar þínar og efni eða upplýsingar um þig sem Microsoft áskotnast í gegnum notkun þína á þjónustunni (eins og IP-tölur eða aðrar upplýsingar þriðja aðila) þegar Microsoft telur í góðri trú að slíkt sé nauðsynlegt: (a) til að uppfylla viðeigandi lög eða til að bregðast við lagalegu ferli til þess bærra yfirvalda; (b) til að framfylgja samningi þessum eða verja réttindi eða eign Microsoft eða viðskiptavina okkar; eða (c) til að koma í veg fyrir mannskaða eða alvarleg meiðsli á fólki.

5.4. Hvernig bregst Microsoft við lagaferlum? Microsoft, rétt eins og öðrum netþjónustuaðilum, eru birtar lagalegar kröfur og beiðnir frá löggæsluaðilum, opinberum stofnunum og málsaðilum í einkamálum vegna efnis sem geymt er á neti okkar. Þessar upplýsingar tengjast hugsanlega meintum glæpum eða einkamálum og er venjulega farið fram á þær samkvæmt hefðbundnu lagaferli í því landi eða á þeim stað þar sem athæfið átti sér stað. Microsoft ber hugsanlega skylda til að verða við slíkum beiðnum vegna upplýsinga þinna eða efnis sem hluta af rannsókn eða dómsmáli.

6. Truflun á þjónustu og öryggisafrit

Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að halda þjónustunni gangandi. Öll þjónusta á netinu verður hins vegar annað veifið fyrir truflunum eða bilunum. Þú ættir að taka reglulega öryggisafrit af efninu sem þú geymir í þjónustunni. Reglulegar öryggisafritanir auðvelda þér að koma í veg fyrir að efnið þitt glatist.

7. Hugbúnaður

7.1. Hvaða ákvæði stjórna hugbúnaðinum sem fylgir með sem hluti af þjónustunni? Ef þú notar eða færð í hendur hugbúnað frá okkur sem er hluti af þjónustunni fellur notkun á honum undir tvenna leyfisskilmála („leyfisskilmálar“): Ef þú færð í hendur sérstakan leyfissamning fyrir hugbúnaðinn og þú samþykkir skilmála hans gilda leyfisskilmálarnir sem eru birtir aðeins fyrir hugbúnaðinn. Ef þú samþykkir ekki leyfisskilmálana máttu ekki nota hugbúnaðinn eða fá hann í hendur. Ef þú færð engan leyfissamning sérstaklega í hendur gilda aðeins skilmálar þessa samnings. Hugbúnaðurinn er háður leyfi, en ekki seldur, og Microsoft áskilur sér allan rétt á hugbúnaðinum sem Microsoft veitir ekki með skýrum hætti samkvæmt leyfisskilmálunum. Ef vefsvæðið sem þú ert að skoða fellur undir þennan samning færðu leyfi fyrir hvers kyns forskriftum eða kóðum þriðju aðila, sem tenglar eða vísanir eru í á þessu vefsvæði, frá þeim þriðju aðilum sem eiga slíka kóða en ekki frá Microsoft.

7.2. Hvernig get ég notað hugbúnaðinn sem fylgir með sem hluti af þjónustunni? Sem hluti af notkun þinni á þjónustunni veitum við þér rétt til að setja upp og nota eitt eintak af hugbúnaðinum fyrir hvert tæki, sem einn einstaklingur má nota hverju sinni, en þó aðeins ef þú uppfyllir öll önnur skilyrði þessa samnings.

7.3. Er eitthvað sem ég má ekki gera við hugbúnaðinn eða þjónustuna? Já. Auk annarra takmarkana í þessum samningi máttu ekki: sniðganga eða sneiða hjá tæknilegum verndarráðstöfunum í eða í tengslum við hugbúnaðinn eða þjónustuna eða taka í sundur, bakþýða eða vendismíða neinn hugbúnað eða annan hluta þjónustunnar sem er innifalinn í eða aðgengilegur gegnum þjónustuna, nema og þá aðeins að því marki sem viðeigandi höfundarréttarlög leyfa slíkt með skýrum hætti; aðskilja íhluti hugbúnaðarins eða þjónustunnar til notkunar í mismunandi tækjum; birta, afrita, leigja út, gera kaupleigusamning um eða lána hugbúnaðinn eða þjónustuna; eða yfirfæra hugbúnaðinn, hvers kyns hugbúnaðarleyfi eða önnur réttindi vegna þjónustunnar, nema það sé leyft með skýrum hætti í þessum samningi. Þú hefur ekki heimild til að nota þjónustuna á neinn óleyfilegan hátt sem gæti truflað notkun einhvers annars á henni eða fá aðgang að neinni þjónustu, gögnum, reikningi eða neti. Þú mátt ekki veita aðgang að þjónustunni frá forritum þriðja aðila án heimildar.

7.4. Hvernig er hugbúnaðurinn uppfærður? Hugsanlega athugum við útgáfu þína af hugbúnaðinum sjálfkrafa. Uppfærslum á hugbúnaðinum kann einnig að vera hlaðið sjálfkrafa niður í tölvuna án þess að gjald sé tekið fyrir, til að uppfæra, bæta og þróa þjónustuna frekar. Þú samþykkir viðtöku slíkra uppfærslna samkvæmt þessum skilmálum nema aðrir skilmálar fylgi með uppfærslunum. Ef svo er gilda þeir skilmálar um uppfærða hugbúnaðinn og ef þú samþykkir ekki þá skilmála sem gilda um uppfærslurnar máttu ekki nota eða fá uppfærslurnar. Microsoft er ekki skylt að gera neinar uppfærslur aðgengilegar og ábyrgist ekki að við munum styðja þá útgáfu kerfisins sem leyfisveiting fyrir hugbúnaðinn gilti um.

8. Aðrir skilmálar fyrir Office.com, MSN og Bing

8.1. Miðlaeiningar og sniðmát frá Office.com og Office Web Apps. Ef Microsoft Office.com eða Microsoft Office Web Apps er notað kanntu að hafa aðgang að miðlamyndum, klippimyndum, hreyfimyndum, hljóðum, tónlist, myndskeiðum, sniðmátum og efni á öðru sniði („miðlaeiningar“) sem fylgir með hugbúnaðinum sem er aðgengilegur á Office.com eða sem er hluti af þjónustu sem tengist hugbúnaðinum. Þú mátt afrita og nota miðlaeiningarnar í verkum og skjölum. Þú mátt ekki (i) selja, veita leyfi fyrir eða dreifa afritum af miðlaeiningunum einum sér eða sem vöru ef aðalvirði vörunnar er fólgið í miðlaeiningunum; (ii) veita viðskiptavinum þínum rétt á að veita frekara leyfi fyrir eða dreifa miðlaeiningunum frekar; (iii) veita leyfi fyrir eða dreifa í viðskiptaskyni miðlaeiningum þar sem koma fyrir einstaklingar, ríkisstjórnir, vörumerki eða tákn sem hægt er að bera kennsl á eða nota þess konar myndir þannig að það gæti gefið til kynna stuðning eða tengsl við vöru, aðila eða aðgerðir á þínum vegum; eða (iv) búa til ósiðleg verk með því að nota miðlaeiningarnar. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni um notkun höfundarréttarvarins efnis frá Microsoft (Use of Microsoft Copyrighted Content, http://www.microsoft.com/permission).

8.2. MSN Video. Myndskeiðin og innfellanlegi myndspilarinn sem eru aðgengileg á MSN Video eru eingöngu ætluð til eigin notkunar í óviðskiptalegum tilgangi og ekki má hlaða þeim niður, afrita þau eða dreifa þeim áfram án heimildar frá rétthöfum, nema annað sé tekið fram annars staðar í þessum samningi. Þú mátt ekki nota innfellanlega myndspilarann á neinu vefsvæði sem fæst að mestu við birtingu auglýsinga eða söfnun áskriftartekna eða sem er í beinni samkeppni við MSN Video nema þú fáir skýrt og skriflegt samþykki okkar fyrst. Þú samþykkir að notkun þín á innfellanlega myndspilaranum kann að leiða til viðbótarkostnaðar, -þóknana og -greiðslna fyrir afnot af réttindum vegna þriðju aðila, þ.m.t. greiðslna fyrir afnot af réttindum vegna opinbers flutnings sem við eiga í þínu landi eða á þínu svæði.

8.3 Raddstýrð leit með Bing. Ef þú notar raddstýrða leitareiginleikann í Bing-forritinu gefurðu yfirlýst samþykki þitt fyrir því að Microsoft taki upp og safni því sem þú segir. Notkun okkar á því sem þú segir verður eingöngu notað til að veita þér Bing-þjónustu og bæta raddgreiningarvörur og -þjónustu Microsoft.

8.4. Staðsetning og m.bing.com Ef þú hefur staðsetningu virka í tækinu þínu þegar þú notar m.bing.com gefurðu yfirlýst samþykki þitt fyrir að Microsoft safni upplýsingum um og noti staðsetningu þína samkvæmt yfirlýsingu Microsoft um persónuvernd á netinu (Online Privacy Statement, http://go.microsoft.com/fwlink/p/?LinkId=253457). Við notum staðsetningarupplýsingar frá þér til að bjóða upp á og bæta leitar- og kortaniðurstöður.

9. Ef þú greiðir Microsoft gilda eftirfarandi skilmálar fyrir þig

9.1. Gjöld. Ef gjald er tekið fyrir hluta þjónustunnar samþykkirðu að greiða það gjald. Verðið sem gefið er upp fyrir þjónustuna felur í sér alla skatta og gengisjafnanir sem við eiga, nema annað sé tekið fram.

9.2. Greiðslureikningurinn þinn. Til að greiða gjöld fyrir þjónustu verður beðið um að þú tilgreinir greiðslumáta þegar þú skráir þig fyrir þeirri þjónustu. Hægt er að fá aðgang að og breyta upplýsingum um greiðslureikning á vefsvæðinu fyrir umsjón með greiðslum og reikningum (Billing and Account Management, https://billing.microsoft.com). Þú samþykkir að viðhalda ætíð nýjustu upplýsingum um greiðslureikning. Einnig samþykkirðu að leyfa Microsoft að nota hvers kyns uppfærðar reikningsupplýsingar varðandi greiðslumáta þinn sem útgáfubankinn þinn eða viðeigandi greiðslukerfi gefur upp. Ef þú segir okkur að hætta að nota greiðslumátann þinn og tilgreinir ekki annan greiðslumáta eftir að við sendum þér tilkynningu um að þú skulir gera það innan viðeigandi tímabils kunnum við að hætta að veita þér greiðsluskylda þjónustu af gildri ástæðu. Tilkynning þín til okkar mun ekki hafa áhrif á þau gjöld sem við höfum fært á greiðslureikning þinn áður en við gætum hafa brugðist við breytingum þínum á upplýsingum um greiðslureikning.

9.3. Greiðslur. Með því að gefa Microsoft upp greiðslumáta (i) lýsirðu því yfir að þú hafir heimild til að nota greiðslumátann sem þú gafst upp og að hverjar þær greiðsluupplýsingar sem þú gefur upp séu réttar og nákvæmar; (ii) heimilarðu Microsoft að rukka þig fyrir þjónustuna með því að nota greiðslumátann þinn; og (iii) heimilarðu Microsoft að rukka þig fyrir hvers kyns greiðsluskylda eiginleika þjónustunnar sem þú velur að skrá þig fyrir eða nota á meðan þessi samningur er í gildi. Greiðsla þjónustugjalda með greiðslumáta þínum kann að eiga sér stað eins og samið var um, þ.m.t.: (a) við kaup; (b) stuttu eftir kaup; eða (c) endurtekið fyrir áskriftarþjónustu. Háð samþykki þínu kann greiðsla einnig að eiga sér stað fyrir fram. Einnig kunnum við að rukka þig upp að þeirri upphæð sem þú hefur samþykkt og við tilkynnum þér fyrir fram um mismuninn vegna endurtekinnar áskriftarþjónustu. Við kunnum að rukka þig fyrir fleiri en eitt fyrri og núverandi greiðslutímabila saman.

9.4. Sjálfvirk endurnýjun. Að því tilskildu að sjálfvirkar endurnýjanir séu leyfðar í þínu landi, héraði eða ríki upplýsum við þig annaðhvort um leið og þú skráir þig fyrir þjónustunni eða áður en við endurnýjum þjónustuna sjálfkrafa um að þjónustan endurnýist sjálfkrafa. Þegar við höfum upplýst þig um að þjónustan verði endurnýjuð sjálfkrafa megum við endurnýja þjónustuna sjálfkrafa og rukka þig um það verð sem þá gildir fyrir endurnýjunartímabilið. Við munum einnig minna þig á að við munum nota valinn greiðslumáta til að rukka fyrir endurnýjun þjónustunnar og munum gefa þér leiðbeiningar um hvernig þú getur sagt upp þjónustunni. Við munum rukka þig um það verð sem þá gildir fyrir endurnýjunartímabilið, nema þú hafir tilkynnt okkur að þú viljir segja upp samningnum minnst mánuði áður en hann rennur út eða hvert endurnýjunartímabil rennur út, eða á annan hátt í samræmi við hugsanleg fyrirmæli okkar um hvernig þú getur sagt upp.

9.5. Netyfirlit og villur. Við útvegum þér netreikningsyfirlit á vefsvæðinu fyrir umsjón með greiðslum og reikningum (Billing and Account Management, https://billing.microsoft.com) þar sem þú getur skoðað og prentað út yfirlitið. Þér er skylt að athuga netreikningsyfirlitið með reglulegu millibili, og a.m.k. einu sinni í mánuði. Þetta er eina reikningsyfirlitið sem við útvegum. Það er á þína ábyrgð að prenta út eða vista afrit af hverju netyfirliti og að geyma slíkt afrit. Ef við gerum mistök á reikningnum þínum munum við leiðrétta þau fljótlega eftir að þú lætur okkur vita og við athugum reikninginn. Þú verður að láta okkur vita innan 120 daga frá því að augljós villa birtist fyrst á reikningnum þínum. Ef þú lætur okkur ekki vita innan þess tíma leysirðu okkur frá allri ábyrgð og kröfum vegna taps sem leiðir af hvers kyns villu sökum minni háttar gáleysis; enn fremur munum við í því tilviki ekki þurfa að leiðrétta villuna eða endurgreiða þér. Í öllum öðrum tilvikum, ef Microsoft hefur fundið villu í reikningi, munum við upplýsa þig og gera ráðstafanir til að leiðrétta hana eins fljótt og kostur er.

9.6. Reynslutími. Þegar þú pantar þjónustu hjá okkur hefurðu rétt á fimmtán daga ógildingartímabili eða „reynslutíma“ nema við byrjum strax að veita þjónustuna, en þá áttu ekki rétt á ógildingartímabili eða „reynslutíma“. Þú getur sagt upp þjónustunni eins og fram kemur í hluta 9.10. Sjá endurgreiðslustefnur Microsoft í hluta 9.9.

9.7. Tilboð til reynslu. Ef þú tekur þátt í einhverju tilboði til reynslu verðurðu að segja upp þjónustunni í lok reynslutímabilsins til að forðast að ný gjöld leggist á, nema við látum þig vita um annað. Þú getur sagt upp þjónustunni eins og fram kemur í hluta 9.10. Ef þú segir ekki upp þjónustunni og við höfum látið þig vita að þjónustunni verði umbreytt í greiðsluskylda áskrift í lok reynslutímabilsins og við höfum upplýst þig um þau gjöld sem við eiga og hvers kyns aðra hugsanlega skilmála sem við eiga heimilarðu okkur að innheimta það verð sem þá gildir fyrir þjónustuna með greiðslumáta þínum.

9.8. Verðbreytingar. Ef tiltekin tímalengd og verð gildir fyrir þjónustutilboðið þitt mun það verð gilda þangað til tilboðstímabilinu lýkur. Þú þarft að samþykkja nýtt tilboð og verð ef þú vilt halda áfram að nota þjónustuna. Ef þjónustan er bundin við ákveðin tímabil (til dæmis mánaðarlega), án tiltekinnar tímalengdar og er ekki tilboð til reynslu, megum við breyta verði þjónustunnar um allt að 5 prósent á ári ef við upplýsum þig um það a.m.k. 30 dögum áður en breytingin tekur gildi. Þú átt kost á því að segja þjónustunni upp áður en verðið breytist. Þegar við tilkynnum þér um verðbreytinguna munum við einnig upplýsa þig sérstaklega um að nýja verðið taki gildi ef þú segir þjónustunni ekki upp. Eftir að tímabilinu lýkur, og að því tilskildu að þú hafir ekki sagt þjónustunni upp svo okkur sé kunnugt, munum við rukka þig fyrir notkun þína á þjónustunni á nýja verðinu. Ef þú samþykkir ekki verðbreytinguna verðurðu að segja þjónustunni upp og hætta að nota hana áður en verðbreytingin tekur gildi. Ef þjónustunni er sagt upp lýkur henni við lok núverandi þjónustutímabils eða, ef við rukkum þig reglulega, við lok tímabilsins þegar þú sagðir þjónustunni upp.

9.9. Endurgreiðslustefnur. Almennt eru gjöld ekki endurgreidd nema endurgreiðslan sé vegna venjulegrar uppsagnar eða uppsagnar af gildri ástæðu eða vegna vítaverðra aðgerða eða yfirsjónar af hálfu Microsoft, þ. á m. ef þjónustan er ekki veitt með skilvirkum hætti. Ef þú átt rétt á reynslutíma skv. hluta 9.6 verða þér endurgreiddar, innan sanngjarnra tímamarka, þær upphæðir sem þú hefur greitt.

9.10. Þjónustunni sagt upp. Þú getur hvenær sem er sagt þjónustunni upp, af einhverri ástæðu eða án ástæðu. Farðu á vefsvæðið fyrir umsjón með greiðslum og reikningum (Billing and Account Management, https://billing.microsoft.com) til að fá nánari upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig þú segir þjónustunni upp. Þú skalt athuga tilboðið sem lýsir þjónustunni þar sem (i) þér ber hugsanlega skylda til að greiða öll gjöld sem færð hafa verið á greiðslureikninginn þinn fram að dagsetningu uppsagnar; eða (ii) þú hefur hugsanlega ekki lengur aðgang að Microsoft-reikningnum þínum þegar þú segir þjónustunni upp.

9.11. Seinkun á greiðslum. Þú verður að greiða þann réttmæta kostnað sem stofnast til vegna innheimtu gjaldfallinna eldri upphæða, þ. á m. þóknanir til lögfræðinga og aðrar lögfræðiþóknanir og -kostnað, eins og lög og reglugerðir leyfa. Við getum hugsanlega sagt upp eða lokað á þjónustuna ef þú greiðir ekki að fullu á tilsettum tíma eftir að við sendum þér áminningu — þar sem tilkynnt er um yfirvofandi uppsögn og/eða stöðvun þjónustunnar — um að ganga frá greiðslu innan viðeigandi tímabils. Hægt er að komast hjá uppsögn eða stöðvun ef þú gengur frá greiðslunni sem krafist er innan viðeigandi tímabils samkvæmt áminningunni. Ólíkt ferli á við ef lágmarksupphæð vantar. Ef upphæðir sem vantar eru undir 2 prósentum af heildarvirði reikningsins teljast þær ávallt vera lágmarksupphæðir. Uppsögn eða stöðvun þjónustunnar vegna vanefnda á greiðslum gæti valdið því að þú hafir ekki lengur aðgang að Microsoft-reikningnum þínum.

9.12. Greiðslur til þín. Ef við skuldum þér greiðslu samþykkirðu að útvega okkur, nákvæmlega og í tíma, hverjar þær upplýsingar sem við þurfum til að geta greitt þér. Hvers kyns skattar og gjöld vegna þessarar greiðslu til þín eru á þína ábyrgð. Ef þér berst greiðsla fyrir mistök megum við bakfæra eða óska þess að greiðslan verði endurgreidd og þú samþykkir að vinna með okkur í aðgerðum okkar þar að lútandi.

9.13. Þjónusta með aðgangi að internetinu og önnur gjöld. Ef þjónustan felur ekki í sér aðgang að internetinu er það á þína ábyrgð að greiða þau gjöld sem netþjónustan innheimtir af þér. Þessi gjöld bætast við þau gjöld sem þú greiðir okkur fyrir þjónustuna. Ef þú notar þjónustuna með þráðlausum búnaði (til dæmis farsíma og spjaldtölvum) kann þjónustuveitan sem sér þér fyrir þráðlausu neti að innheimta gjöld fyrir tilkynningar, vefskoðun, skilaboð og aðra þjónustu sem krefst notkunar senditíma og þráðlausrar gagnaþjónustu. Leitaðu upplýsinga hjá þjónustuveitunni til að ganga úr skugga um hvort slík gjöld kunna að eiga við um þig. Þú berð alla ábyrgð á hverjum þeim kostnaði sem til stofnast vegna aðgangs að þjónustunni gegnum hvers kyns þráðlausa eða aðra samskiptaþjónustu.

10. VIÐ VEITUM ENGA VIÐBÓTARÁBYRGÐ

VIÐ ÚTVEGUM ÞJÓNUSTUNA „EINS OG HÚN ER“, „MEÐ ÖLLUM VILLUM“ OG „Í SAMRÆMI VIÐ FRAMBOГ. VIÐ ÁBYRGJUMST EKKI AÐ UPPLÝSINGARNAR FRÁ ÞJÓNUSTUNNI SÉU NÁKVÆMAR EÐA RÉTT TÍMASETTAR. ÞÚ SAMÞYKKIR AÐ TÖLVU- OG FJARSKIPTAKERFI ERU EKKI VILLULAUS OG AÐ STUNDUM LIGGUR ÞJÓNUSTAN NIÐRI. VIÐ GETUM EKKI ÁBYRGST AÐ ÞJÓNUSTAN VERÐI ÓTRUFLUÐ, Á RÉTTUM TÍMA, ÖRUGG EÐA VILLULAUS. VIÐ OG TENGD FYRIRTÆKI OKKAR, ENDURSELJENDUR, DREIFINGARAÐILAR OG SÖLUAÐILAR VEITUM ENGA SÉRSTAKA ÁBYRGÐ, TRYGGINGAR EÐA SKILYRÐI. ÞÚ ÁTT RÉTT Á ALLRI ÁBYRGÐ SEM GERT ER RÁÐ FYRIR Í LÖGUM, EN VIÐ VEITUM ENGA AÐRA ÁBYRGÐ. VIÐ UNDANSKILJUM OKKUR HVERS KYNS ÓBEINNI ÁBYRGÐ, Þ. Á M. VEGNA SÖLUHÆFNI, NOTAGILDIS Í ÁKVEÐNUM TILGANGI, VANDAÐRA VINNUBRAGÐA OG HELGI EIGNARRÉTTAR.

11. Takmörkun ábyrgðar

11.1. Microsoft skal ekki bera ábyrgð á neinu efni, þ. á m. tenglum í vefsvæði þriðju aðila, og athöfnum notenda. Hvorki má rekja slíkt efni og athafnir til Microsoft né heldur lýsir það skoðunum Microsoft.

11.2. Microsoft skal einungis vera ábyrgt fyrir minni háttar gáleysi af hálfu Microsoft, staðgengla þess og/eða lögmanna ef brotið hefur verið gegn efnislegum skyldum samningsins. Efnislegar skyldur ná yfir hvers kyns skyldur sem uppfylla þarf til að framfylgja þessum samningi með tilhlýðilegum hætti, sem gera kleift að ná markmiðum þessa samnings og þar sem notandinn getur almennt gert ráð fyrir því að þessar skyldur verði uppfylltar í samræmi við skilning og innihald samningsins.

11.3. Microsoft, staðgenglar þess og/eða lögmenn skulu ekki bera ábyrgð á neinum ófyrirsjáanlegum skaða, ódæmigerðum skaða og/eða fjárhagslegu tapi með tilliti til hvers kyns óbeins tjóns, þ. á m. skerðingar á hagnaði, nema Microsoft, staðgenglar þess og/eða lögmaður þess hafi a.m.k. sýnt af sér alvarlega vanrækslu.

11.4. Takmörkun ábyrgðar skal ekki hafa ábyrgð á hvers kyns lögboðna ábyrgð Microsoft án sakar, þ. á m., án takmarkana, ábyrgð samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð og lögboðna ábyrgð vegna brota á vöruábyrgð. Hið sama skal gilda um ábyrgð Microsoft, staðgengla þess og/eða lögmanna ef einstaklingur verður fyrir lífshættulegu tjóni, líkams- eða heilsutjóni sem stafar af vanrækslu.

11.5. Engar aðrar samningsbundnar kröfur og réttarkröfur en þær sem undirhlutar 11.1 til og með 11.4 í þessum 11. hluta ná yfir skulu leiða af þessum samningi og/eða notkun þjónustunnar, fyrir utan hvers kyns samningsbundna og/eða lagalega ábyrgð Microsoft á dauðsfalli og/eða áverka sem þessi 11. hluti hefur ekki náð yfir.

12. Samningsaðili af hálfu Microsoft

12.1 Evrópa. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Evrópu semurðu við Microsoft Luxembourg S.à.r.l., 20 Rue Eugene Ruppert, Immeuble Laccolith, 1st Floor, L-2543 Lúxemborg og lög í Lúxemborg stjórna túlkun á þessum samningi og ná þau yfir kröfur vegna brota á honum, óháð meginreglum um lagaskil, nema þú búir á eða fyrirtæki þitt sé með höfuðstöðvar á Spáni, en í þeim tilvikum stjórna lög á Spáni túlkun á þessum samningi. Allar aðrar kröfur, þ. á m. kröfur vegna neytendaverndar, ósanngjarnra samkeppnislaga og skaðabóta, falla undir lög þess lands þar sem við veitum þér þjónustu okkar. Með tilliti til lögsögu er þér og Microsoft heimilt að velja það land þar sem við veitum þér þjónustu okkar vegna allra deilumála sem upp kunna að koma vegna eða í tengslum við þennan samning, eða þér er að öðrum kosti heimilt að velja ábyrga dómstóla í Lúxemborg.

12.2. Bandaríkin.Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Bandaríkjunum gerirðu samning við Microsoft Corporation, One Microsoft Way, Redmond, WA 98052, Bandaríkjunum. Lög þess ríkis sem þú býrð í stjórna túlkun á þessum samningi, kröfum vegna brota á honum og öllum öðrum kröfum (þ. á m. kröfum vegna neytendaverndar, ósanngjarnrar samkeppni og skaðabóta), óháð meginreglum um lagaskil. Þú og við samþykkjum á óafturkræfan hátt fulla lögsögu og stað ríkis- og alríkisdómstóla í King County, Washington, fyrir öll deilumál sem upp kunna að koma vegna eða í tengslum við þennan samning eða þjónustuna og flutt eru fyrir réttinum (ekki gerðardómi og ekki smámálameðferð (small claims court)).

12.3. Norður- eða Suður-Ameríka utan Bandaríkjanna. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Norður- eða Suður-Ameríku utan Bandaríkjanna gerirðu samning við Microsoft Corporation, One Microsoft Way, Redmond, WA 98052, Bandaríkjunum. Lög í Washington-ríki stjórna túlkun á þessum samningi og ná þau yfir kröfur vegna brota á honum, óháð meginreglum um lagaskil. Allar aðrar kröfur, þ. á m. kröfur vegna neytendaverndar, ósanngjarnra samkeppnislaga og skaðabóta, falla undir lög þess lands þar sem við veitum þér þjónustu okkar.

12.4. Mið-Austurlönd eða Afríka. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Mið-Austurlöndum eða Afríku semurðu við Microsoft Luxembourg S.à.r.l., 20 Rue Eugene Ruppert, Immeuble Laccolith, 1st Floor, L-2543 Lúxemborg, og lög í Lúxemborg stjórna túlkun á þessum samningi og ná þau yfir kröfur vegna brota á honum, óháð meginreglum um lagaskil. Allar aðrar kröfur, þ. á m. kröfur vegna neytendaverndar, ósanngjarnra samkeppnislaga og skaðabóta, falla undir lög þess lands þar sem við veitum þér þjónustu okkar. Þú og við samþykkjum á óafturkræfan hátt fulla lögsögu og stað dómstóla í Lúxemborg fyrir öll deilumál sem upp kunna að koma vegna eða í tengslum við þennan samning.

12.5. Asía eða Suður-Kyrrahaf, nema land þitt sé sérstaklega tilgreint. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Asíu eða á Suður-Kyrrahafssvæðinu gerirðu samning við Microsoft Regional Sales Corp., fyrirtæki sem heyrir undir lög Nevada-ríkis, Bandaríkjunum, með útibú í Singapúr og viðskiptahöfuðstöðvar á 438B Alexandra Road, #04-09/12, Block B, Alexandra Technopark, Singapúr, 119968, og stjórna lög Washington-ríkis þessum samningi, óháð meginreglum um lagaskil. Hvers kyns deilum sem upp kunna að koma í tengslum við þennan samning, þ. á m. hvers kyns efasemdir um tilvist hans, gildi eða lúkningu, verður vísað til og þær leystar í gerðardómi í Singapúr í samræmi við gerðardómsreglur Singapore International Arbitration Center (SIAC), en þær reglur teljast innfelldar með tilvísun í þessu ákvæði. Dómstóllinn mun samanstanda af einum gerðardómsmanni sem útnefndur er af formanni SIAC. Tungumál gerðardómsins verður enska. Ákvörðun gerðardómsmannsins verður endanleg, bindandi og óvefengjanleg og hana má nota sem grunn að dómi í hvaða landi eða á hvaða svæði sem er.

12.6. Japan. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Japan gerirðu samning við Microsoft Japan Co., Ltd (MSKK), Shinagawa Grand Central Tower, 2-16-3 Konan Minato-ku, Tokyo 108-0075. Lög í Japan stjórna þessum samningi og hvers kyns málum sem kunna að koma upp vegna hans eða í tengslum við hann. Þú og við samþykkjum á óafturkræfan hátt fulla upprunalega lögsögu og stað undirréttar í Tókýó fyrir öll deilumál sem upp kunna að koma vegna eða í tengslum við þennan samning.

12.7. Kína. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Kína gerirðu samning við Shanghai MSN Network Communications Technology Company Limited, Suite B, 8th Floor, Building Ding, No. 555, Dongchuan Road, Minxing District, Shanghai, Alþýðulýðveldinu Kína, fyrir notkun þína á MSN, Bing eða Windows Live Messenger. Lög Alþýðulýðveldisins Kína stjórna þessum samningi eins og hann tengist notkun þinni á þjónustu undir þessum samningi og sem framkvæmd er af Shanghai MSN Network Communications Technology Company Limited. Varðandi notkun þína á MSN, Bing eða Windows Live Messenger undir þessum samningi verður hvers kyns deilum sem upp kunna að koma í tengslum við þennan samning, þ. á m. hvers kyns efasemdum um tilvist, gildi eða lúkningu samningsins, vísað til og þær leystar í gerðardómi í Hong Kong á vegum Hong Kong International Arbitration Center („HKIAC“) í samræmi við gerðardómsreglur UNCITRAL, sem teljast innfelldar með tilvísun í þessu ákvæði. Í slíkum gerðardómi verður einn gerðardómsmaður sem HKIAC útnefnir í samræmi við gerðardómsreglur UNCITRAL. Tungumál gerðardómsins verður enska. Ákvörðun gerðardómsmannsins verður endanleg, bindandi og óvefengjanleg, og hana má nota sem grunn að dómi í Kína eða annars staðar. Hvað notkun þína á allri annarri þjónustu samkvæmt þessum samningi varðar gerirðu samning við Microsoft Corporation, One Microsoft Way, Redmond, WA 98052, Bandaríkjunum. Lög í Washington-ríki stjórna túlkun á þessum samningi hvað þessa þjónustu varðar, óháð meginreglum um lagaskil. Lögsaga ríkis- eða alríkisdómstóla í King County, Washington, Bandaríkjunum, felur ekki í sér einkarétt.

12.8. Suður-Kórea. Ef þú býrð í (eða ert fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Suður-Kóreu gerirðu samning við Microsoft Korea, Inc., 6th Floor, POSCO Center, 892 Daechi-Dong, Kangnam-Gu, Seúl, 135-777, Suður-Kóreu, og lög í Suður-Kóreu stjórna þessum samningi. Þú og við samþykkjum á óafturkallanlegan hátt fulla upprunalega lögsögu og stað undirréttar í Seúl fyrir öll deilumál sem upp kunna að koma vegna eða í tengslum við þennan samning.

12.9. Taívan. Ef þú býrð í (eða ef um er að ræða fyrirtæki með höfuðstöðvar í) Taívan gerirðu samning við Microsoft Taiwan Corp., 8F, No 7 Sungren Road, Shinyi Chiu, Taípei, Taívan, og lög Taívan stjórna þessum samningi. Þú og við tilnefnum á óafturkræfan hátt undirrétt Taípei sem dómstól á fyrsta dómstigi og hefur hann lögsögu yfir hvers kyns deilumálum sem upp koma vegna eða í tengslum við þennan samning.

13. Vefsvæði þriðja aðila

Þú getur hugsanlega fengið aðgang að vefsvæðum eða þjónustu þriðja aðila í gegnum þjónustu sem Microsoft stjórnar ekki eða gefur ekki út. Microsoft ber ekki ábyrgð á vefsvæðum, þjónustu eða efni þriðja aðila sem aðgengilegt er í gegnum þjónustuna. Þú berð alla ábyrgð á samskiptum þínum við þriðju aðila (þ. á m. auglýsendur). Notkun þín á vefsvæðum eða þjónustu þriðja aðila getur verið háð ákvæðum og skilmálum þess þriðja aðila.

14. DRM

Ef þú færð aðgang að efni sem varið er með Microsoft Digital Rights Management (DRM) mun hugbúnaðurinn sjálfkrafa biðja um notkunarréttindi frá réttindaþjóninum á netinu og hlaða niður og setja upp DRM-uppfærslur svo að hægt sé að spila efnið. Frekari upplýsingar um DRM er að finna í yfirlýsingu um persónuvernd fyrir Microsoft Silverlight (Microsoft Silverlight Privacy Statement, http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=178857).

15. Microsoft .NET Framework-hugbúnaður

Hugbúnaðurinn kann að innihalda Microsoft .NET Framework-hugbúnað. Þessi hugbúnaður er hluti af Windows. Leyfisskilmálar Windows eiga við um notkun .NET Framework-hugbúnaðarins.

16. Líftími

Hlutar 6, 9 (fyrir fjárhæðir sem stofnað er til áður en samningurinn fellur úr gildi), 10, 11, 12 og 19 og þeir hlutar sem bera ákvæði sem eiga við eftir að samningi lýkur munu lifa af alla lúkningu eða afturköllun þessa samnings.

17. Úthlutun og flutningur

Við getum úthlutað, flutt eða á annan hátt ráðstafað réttindum okkar og skyldum undir þessum samningi í heild sinni eða að hluta, ef úthlutunin er þér ekki í óhag, hvenær sem er án tilkynningar.

18. Tilkynningar

Þessi samningur er á rafrænu sniði. Við getum hugsanlega sent þér, á rafrænu sniði, upplýsingar um þjónustuna, viðbótarupplýsingar og upplýsingar sem lögin krefjast að við veitum. Við getum sent þér áskildar upplýsingar í tölvupósti á tölvupóstfangið sem þú tilgreindir þegar þú skráðir þig fyrir þjónustunni eða með aðgangi að vefsvæði Microsoft sem við auðkennum. Við mælum með því að þú fylgist með og viðhaldir tölvupóstfanginu sem þú tilgreindir. Ef þú samþykkir ekki að fá tilkynningar með rafrænum hætti þarftu að hætta notkun þjónustunnar. Þú getur tilkynnt það til Microsoft, eins og tilgreint er í notendaþjónustu fyrir þjónustuna, eins og tilgreint er í hluta 22.

19. Túlkun samnings

Þetta er samningurinn í heild sinni á milli þín og Microsoft fyrir notkun þína á þjónustunni. Hann leysir af hólmi alla fyrri samninga á milli þín og Microsoft varðandi notkun þína á þjónustunni. Kaflaheiti samningsins eru eingöngu til tilvísunar og hafa engin réttaráhrif. Aðskilin ákvæði eða viðbótarákvæði gætu átt við þegar þú notar eða greiðir fyrir aðra þjónustu Microsoft en sem þessi samningur gildir um. Allir hlutar þessa samnings eiga við að fullu að því marki sem viðeigandi lög leyfa. Ef dómstóll kveður svo úr um að við getum ekki framfylgt hluta af þessum samningi eins og hann er skrifaður gætum við skipt út þeim ákvæðum fyrir áþekk ákvæði sem hægt væri að framfylgja samkvæmt viðeigandi lögum, en aðrir hlutar samningsins haldast óbreyttir.

20. Engum þriðja aðila til hagsbóta

Þessi samningur er eingöngu þér og okkur til hagsbóta. Hann er ekki gerður neinum öðrum aðila til hagsbóta, nema arftökum og framsalshöfum sem leyfi hafa.

21. Leturgerðir

Þú mátt eingöngu nota leturgerðirnar til að birta og prenta efni þegar þjónustan er notuð. Ekki má sniðganga neinar takmarkanir á innfellingum leturgerðanna.

22. Þjónusta

Notendaþjónusta fyrir þjónustu með vörumerki Microsoft er fáanleg á Microsoft Answers (http://answers.microsoft.com) og á Windows-vefsvæðinu (http://windows.microsoft.com). Notendaþjónusta fyrir MSN Internet Access er fáanleg á MSN Support (https://support.msn.com). Notendaþjónusta í tölvupósti fyrir Bing og Bing-biðlara er fáanleg á Bing Support (https://support.discoverbing.com). Hvers kyns kvartanir varðandi framkvæmd samningsins skal senda til vefsvæðanna sem sett eru fram í þessu ákvæði.

23. Takmarkanir á útflutningi

Ókeypis hugbúnaður og þjónusta Microsoft eru háð útflutnings- og tæknilögum Bandaríkjanna og annarra lögsagna og þú samþykkir að fara að öllum slíkum lögum og reglugerðum sem við eiga og ná yfir hugbúnaðinn og/eða þjónustuna. Heimildar ríkisstjórnar Bandaríkjanna er krafist til að flytja þennan ókeypis hugbúnað og þjónustu til ríkisstjórna allra landa þar sem viðskiptabann er í gildi eða til tiltekinna bannaðra aðila. Sjá frekari upplýsingar á vefsvæði fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkID=243206). Auk þess er gjaldskyld þjónusta háð útflutningslögum og -reglugerðum Bandaríkjanna sem þú verður að hlíta. Þessi lög fela í sér takmarkanir varðandi áfangastaði, endanlega notendur og endanlega notkun. Frekari upplýsingar eru á vefsvæði um útflutning á vörum Microsoft (Exporting Microsoft Products, http://www.microsoft.com/permission).

TILKYNNINGAR

Tilkynninga- og kröfuferli vegna brota á höfundarrétti. Tilkynningar um kröfu vegna brots á höfundarrétti skal senda til tilnefnds umboðsaðila Microsoft. FYRIRSPURNUM SEM EKKI EIGA VIÐ ÞETTA FERLI VERÐUR EKKI SVARAÐ Upplýsingar og samskiptaupplýsingar er að finna í tilkynninga- og kröfuferli vegna brota á höfundarrétti (Notice and Procedure for Making Claims of Copyright Infringement, http://www.microsoft.com/info/cpyrtInfrg.htm).

Tilkynningar og ferli varðandi hugverkarétt í auglýsingum á kostuðum vefsvæðum. Lestu yfir leiðbeiningar okkar um hugverkarétt (Intellectual Property Guidelines, http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=243207) varðandi hugverkarétt á auglýsinganeti okkar.

Tilkynningar um höfundarrétt og vörumerki. Allt efni þjónustunnar er varið með höfundarrétti © 2012 Microsoft Corporation og/eða birgja þess, One Microsoft Way, Redmond, WA 98052, Bandaríkjunum. Allur réttur áskilinn. Við eða birgjar okkar eigum titla, höfundarrétt og annan hugverkarétt á þjónustunni og efni hennar. Microsoft og heitin, vörumerkin og táknin fyrir allar vörur, hugbúnað og þjónustu Microsoft eru hugsanlega annaðhvort vörumerki eða skráð vörumerki Microsoft (http://www.microsoft.com/about/legal/en/us/IntellectualProperty/Trademarks/EN-US.aspx) í Bandaríkjunum og/eða öðrum löndum. Heiti raunverulegra fyrirtækja og vara gætu verið vörumerki viðkomandi eigenda. Allur réttur sem ekki er veittur með yfirlýstum hætti í þessum samningi er áskilinn. Tiltekinn hugbúnaður sem notaður er á tilteknum vefsvæðisþjónum Microsoft byggist að hluta til á vinnu Independent JPEG Group. Höfundarréttur © 1991-1996 Thomas G. Lane. Allur réttur áskilinn. „gnuplot“-hugbúnaður sem notaður er á tilteknum vefsvæðisþjónum Microsoft er varinn með höfundarrétti © 1986-1993 Thomas Williams, Colin Kelley. Allur réttur áskilinn.

Hlutabréfagengi og vísitölugögn (þ. á m. vísitölugildi). Allar upplýsingar sem fengnar eru frá Interactive Data Corporation („IDC“) og tengdum félögum („IDC-upplýsingar“) og innifaldar eru í þjónustunni eru í eigu IDC og tengdra félaga eða þeir eru leyfishafar. Þér er einungis heimilt að geyma, vinna með, greina, endursníða, prenta eða birta IDC-upplýsingarnar til eigin nota. Þú mátt ekki birta, endursenda, endurdreifa eða endurgera á annan hátt nokkurs konar IDC-upplýsingar á neinu sniði. Þú getur ekki heldur notað IDC-upplýsingar í eða í tengslum við fyrirtæki eða viðskiptastofnun, þ. á m., án takmarkana, hvers kyns verðbréf, fjárfestingu, bókhald, bankastarfsemi, lagalega starfsemi eða miðlunarfyrirtæki. Áður en viðskipti með verðbréf eru gerð á grunni IDC-upplýsinganna er þér ráðlagt að ráðfæra þig við miðlara þinn eða annan fjárhagslegan ráðgjafa til að staðfesta verðupplýsingarnar. Hvorki IDC né tengd fyrirtæki eða leyfisveitendur þeirra bera ábyrgð gagnvart neinum notanda eða nokkrum öðrum vegna hvers kyns truflana, ónákvæmni, tafa, villu eða yfirsjónar, óháð orsökunum, í IDC-upplýsingunum eða vegna neins skaða (hvort sem um er að ræða beinan eða óbeinan skaða, afleiddan, refsiskaða eða dæmigerðan skaða) sem af hlýst. Ákvæði þessa hluta endurspegla fyrirkomulag á milli Microsoft og IDC og tengdra fyrirtækja og þú samþykkir að þessi hluti, en ekki aðrir hlutar þessa samnings, eigi við um IDC-upplýsingarnar ef upp koma árekstrar eða ósamræmi við annað ákvæði í þessum samningi.

Þú mátt ekki nota neina af vísitölum Dow JonesSM, vísitölugögn eða merki Dow Jones í tengslum við útgáfu, stofnun, kostun, viðskipti, markaðssetningu eða kynningu á neinum fjármálagerningum eða fjárfestingarvörum (til dæmis afleiðum, sérhönnuðum vörum, fjárfestingarsjóðum, sjóðum sem viðskipti eru með á verðbréfamarkaði eða fjárfestingarsöfnum; þar sem verð, arður og/eða afköst gerningsins eða fjárfestingarvörunnar er byggður á, tengdur eða ætlað að fylgjast með hvers kyns vísitölu eða staðgengli fyrir hvers kyns vísitölu) án sérstaks skriflegs samkomulags við Dow Jones.

Fjárhagsleg tilkynning. Microsoft er ekki miðlari/söluaðili eða skráður fjárfestingarráðgjafi sem háður er bandarískum alríkislögum um verðbréf eða lögum um verðbréf í öðrum lögsögum og gefur einstaklingum ekki ráðgjöf um fýsileika þess að fjárfesta í, kaupa eða selja verðbréf eða aðrar fjármálavörur eða -þjónustu. Ekkert sem innifalið er í þjónustunni er tilboð eða beiðni um að kaupa eða selja nein verðbréf. Hvorki Microsoft né leyfishafar þess á hlutabréfagengi eða vísitölugögnum mæla með neinum sérstökum fjármálavörum eða -þjónustu. Engu í þjónustunni er ætlað að vera fagleg ráðgjöf, þ. á m. en án takmörkunar við ráðgjöf um fjárfestingar eða skatta.

Tilkynning um H.264/AVC myndstaðalinn og VC-1 myndefnisstaðalinn. Hugbúnaðurinn gæti verið búinn H.264/MPEG-4 AVC og/eða VC-1 afkóðunartækni. MPEG LA, L.L.C. krefst eftirfarandi tilkynningar:

ÞESSI VARA ER HÁÐ LEYFUM AVC OG VC-1 EINKALEYFASAFNANNA FYRIR EIGIN NOTKUN NEYTANDA OG NOTKUN SEM EKKI ER VIÐSKIPTALEGS EÐLIS TIL AÐ (A) KÓÐA MYNDEFNI Í SAMRÆMI VIÐ STAÐLANA („MYNDEFNISSTAÐLAR“) OG/EÐA (B) AFKÓÐA AVC OG VC-1 MYNDEFNI SEM VAR KÓÐAÐ AF NEYTANDA SEM STUNDAÐI EIGIN ATHAFNIR EÐA ATHAFNIR SEM EKKI ERU VIÐSKIPTALEGS EÐLIS OG/EÐA VAR FENGIÐ FRÁ MYNDEFNISVEITU MEÐ HEIMILD TIL AÐ VEITA SLÍKT MYNDEFNI. EKKERT AF LEYFUNUM NÆR YFIR AÐRAR VÖRUR ÓHÁÐ ÞVÍ HVORT SLÍK VARA VAR INNIFALIN Í ÞESSUM HUGBÚNAÐI SEM EINN HLUTUR. EKKERT LEYFI ER VEITT EÐA SKAL GEFIÐ Í SKYN TIL NEINNAR ANNARRAR NOTKUNAR. FREKARI UPPLÝSINGAR MÁ FÁ HJÁ MPEG LA, L.L.C. SJÁ VEFSVÆÐI MPEG LA (http://go.microsoft.com/fwlink/?LinkId=31690).

Þessi tilkynning er til skýringar eingöngu og takmarkar hvorki né kemur í veg fyrir notkun hugbúnaðarins sem veittur er undir þessum samningi fyrir eðlilega viðskiptalega notkun sem telst eigin notkun í þeim viðskiptum og felur ekki í sér (i) endurdreifingu hugbúnaðarins til þriðju aðila eða (ii) að efni sé búið til með tækni sem samræmist myndefnisstöðlunum til dreifingar til þriðju aðila.